Skiptir máli að segja satt?

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýlega bárust svör frá Innviðaráðuneyti um stjórnsýslu meirihluta Strandabandalagsins og oddvita sveitarfélagsins Strandabyggðar. Lengi hafði verið beðið eftir þessum svörum og enn er ósvarað fleiri fyrirspurnum sem ráðuneytinu hafa borist frá ýmsum aðilum. Ráðuneytið tók þá ákvörðun í þessu máli að setja fjögur erindi sem því höfðu borist saman í eitt álit.

Eitt af þessum erindum sendu undirrituð, fulltrúar sem sátu í síðustu sveitarstjórn Strandabyggðar þar til í maí 2022. Hin þrjú komu frá minnihluta sveitarstjórnar sem var ósáttur við að oddvitinn hafði með stuðningi síns fólks í meirihlutanum ítrekað brotið sveitarstjórnarlög við undirbúning og framkvæmd sveitarstjórnarfunda og tekið bæði málfrelsið og tillöguréttinn af minnihlutanum.

Niðurstaða ráðuneytisins

Að okkar mati er álitið sjálft skýrt og skorinort. Varðandi beiðni okkar um aðstoð ráðuneytisins til að knýja fram svör frá oddvitanum og sveitarstjórninni, er sagt hreint út að sveitarfélaginu beri sem stjórnvaldi skylda til að svara skriflegum erindum.

Varðandi kvartanir minnihlutans er farið vandlega yfir með hvaða hætti sveitarstjórnarlög hafa verið brotin hverju sinni og hvaða lagagreinar og sagt að “vanræksla sveitarfélagsins við að gæta að umræddum grundvallarréttindum sveitarstjórnarfulltrúa sé verulega ámælisverð”. Þessi grundvallarréttindi sem vísað er til eru málfrelsið og rétturinn til að koma málefnum á dagskrá, hvort tveggja grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnarhátta.

Fullkominn skortur á skilningi

Þrátt fyrir þetta skilur oddvitinn og meirihlutinn ýmislegt í þessu áliti frá ráðuneytinu með allt öðru móti. Eða hvernig á öðruvísi að skilja, af hverju reynt er að koma á framfæri öldungis fráleitum túlkunum á álitinu? Eins er gripið til aðferðar sem hefur áður gefist vel gagnvart fylgismönnum Strandabandalagsins. Að ljúga því sama aftur og aftur. Rangtúlkanir meirihlutans hafa nefnilega birst víða, t.d. á vef sveitarfélagsins, í fréttamiðlinum bb.is og á fésbókarsíðu Strandabandalagsins.

Álit ráðuneytisins er dagsett 10. nóv. og var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar 14. nóv. síðastliðinn. Þar leggja báðir listar fram bókanir um málið. Í langri bókun meirihluta Strandabandalagsins í fundargerðinni er að finna  ýmis ósannindi og rangfærslur, sem við ætlum að taka til skoðunar í þessari grein.

Rangfærslur Strandabandalagsins

•             Það eru ýkjur að um sé að ræða álit um “fjölda kvörtunarbréfa frá fyrrverandi sveitarstjórn og A lista”. Samtals eru erindin sem svarað er að þessu sinni bara fjögur og aðeins eitt af þeim er frá fyrrum sveitarstjórn. Það er jafnframt eina erindið sem við höfum tekið okkur saman um að senda ráðuneytinu til úrlausnar, hingað til.

•             Það er rangt í bókun Strandabandalagsins að í áliti ráðuneytisins sé fjallað “almennt um meinta ólögmæta stjórnsýslu” Strandabyggðar. Það fer ekkert á milli mála að þar er fjallað nákvæmlega um einstök tilvik um ólögmæta stjórnsýslu og tiltekin margvísleg og ítrekuð brot meirihluta sveitarstjórnar á sveitarstjórnarlögum. Umfjöllunin er því ekki almenn og brotin ekki “meint”.

•             Túlkun Strandabandalagsins á þeirri niðurstöðu í álitinu að ráðuneytið sjái ekki ástæðu til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu sveitarfélagsins er útúrsnúningur og rangtúlkun. Þarna er ekki verið að leysa meirihlutann undan þeirri skyldu að svara þeim spurningum og erindum sem að honum er beint. Þvert á móti kemur skýrt fram að sveitarfélaginu ber einmitt að svara þeim erindum frá fyrrverandi sveitarstjórnarfólki sem hafa verið hunsuð. Það er óháð því að ráðuneytið sjálft sjái ekki ástæðu til að rannsaka einstök mál, enda eru allar ásakanir um lögbrot okkar settar fram sem ónákvæmur rógburður, en tilgreina ekki einstök tilvik og því er erfitt fyrir ráðuneytið að bregðast við.

•             Það eru hrein ósannindi að kenna fyrri sveitarstjórnum Strandabyggðar um þau lögbrot núverandi oddvita og meirihluta sem felast í því að banna umræðu um mál sem lögð eru fram til kynningar á fundum og flokka síðan málin eftir því hvort meirihlutinn vill að það sé talað um þau eða ekki. Slík brot á málfrelsi og aðför að lýðræðislegri umræðu eru algjör nýlunda. Þessa aðferð tók núverandi oddviti hjá Strandabyggð upp, með stuðningi meirihluta sveitarstjórnar, en slík vinnubrögð hafa aldrei áður verið viðhöfð hjá sveitarfélaginu. Þessi breyting á framkvæmd funda virðist hafa verið kynnt með tilskipun á sveitarstjórnarfundi 13. desember 2022.

•             Það er hvort tveggja ósatt í bókuninni að ráðuneytið telji “ekki grundvöll til að aðhafast neitt frekar í málinu” og að málinu sé “lokið af hálfu ráðuneytisins”. Það kemur einmitt fram í álitinu að ráðuneytið fer fram á að sveitarfélagið upplýsi innan fjögurra vikna hvort og hvernig sveitarfélagið hyggst bæta úr þeim ágöllum á framkvæmd sveitarstjórnarfunda sem rakin eru í álitinu. Eftir atvikum ætlar ráðuneytið þá að taka til skoðunar hvort að ástæða sé til að líta til annarra úrræða sveitarstjórnarlaga, til að mynda útgáfu fyrirmæla.

•             Það eru ítrekuð ósannindi frá oddvita sem enn á ný birtast í þessari bókun, að óánægja okkar stafi af úrslitum síðustu kosninga. Fæst okkar voru þar í framboði og frá okkar sjónarhorni snýst málið ekki að neinu leyti um kosningar, heldur þær ásakanir og lygar sem fyrri sveitarstjórn hefur þurft að sitja undir allt frá því að núverandi oddviti var rekinn úr starfi sveitarstjóra í apríl 2021. Við höfum aldrei gert athugasemdir við úrslit eða framkvæmd kosninganna, íbúar kusu sér einfaldlega þá sveitarstjórn sem þeir vildu, úr þeim hópi sem stóð til boða.

•             Það er sömuleiðis dæmalaus og ítrekuð lygi að “undirritaður” (sem birtist þarna allt í einu eins og skrattinn úr sauðaleggnum í bókun Strandabandalagsins sem allur meirihlutinn stendur á bak við) hafi þrisvar sinnum boðið fyrrverandi sveitarstjórn á fund núverandi sveitarstjórnar til að ræða um ágreining og deilur. Fyrrverandi sveitarstjórnarfólk hefur ekki fengið nein slík boð frá sveitarfélaginu eða oddvita. Rétt er að geta þess að nú höfum við óskað eftir nánari upplýsingum frá sveitarfélaginu um þessi dularfullu fundarboð, sem hafa ekki komist til skila.

  • Loks ber að nefna að konurnar tvær í núverandi sveitarstjórn boðuðu fyrrverandi sveitarstjórnarfólk nýlega á sáttafund og öll sem voru á svæðinu það kvöld mættu þar. Í bókun Strandabandalagsins er túlkun á niðurstöðu þess fundar sem við furðum okkur á og könnumst ekki við.

Vinnufriður í sveitarfélaginu

Nú virðist ljóst, af kvörtunum oddvita um skort á vinnufriði, að of stór hluti af vinnutíma hans fer í að finna leiðir til að komast hjá því að svara fyrirspurnum og erindum. Á þessum endalausa flótta undan því að svara skilmerkilega, virðist oddvitinn bera lögfræðing á bakinu og gerir mikið úr því hversu erfitt það sé. Það er undrunarefni að ekki sé hægt að svara spurningum án slíkrar aðstoðar.

Við höfum lausnina. Við vitum hver forsenda sáttar í samfélaginu er. Oddvitinn og meirihluti sveitarstjórnar í Strandabyggð þurfa einfaldlega að svara undanbragðalaust þeim erindum sem borist hafa og þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram. Og það þarf engan lögfræðing til aðstoðar, bara að ákveða að segja satt og rétt frá.

Það er heldur ekki eins og við séum að óska eftir lista um lögbrot og mistök meirihlutans. Við viljum þvert á móti fá nákvæmt yfirlit um okkar eigin glæpi, sundurliðað eftir tilvikum og aðild þeirra einstaklinga sem sátu síðasta árið í síðustu sveitarstjórn. Vilja íbúar í Strandabyggð ekki einmitt fá hreinskilin svör og yfirlit um öll þessi lögbrot sem hefur nú verið dylgjað um í meira en tvö ár? Eins og við höfum líka verið að biðja um.

Tengill á bréf okkar til Innviðaráðuneytis 30. ágúst 2022:
https://galdrastrandir.is/wp-content/uploads/2023/11/Erindi-til-innvidaraduneytis-30agust2022.pdf?fbclid=IwAR1Qy-Kdxt83V9-xFGPh1nA37e8lxOzTBMuKE8LluBQLTXUOwS5skcYKE7o

Tengill á álit Innviðaráðuneytis 10. nóvember 2023:
https://galdrastrandir.is/wp-content/uploads/2023/11/alit-strandabyggd-okt-2023-loka.pdf?fbclid=IwAR1Ew2ApoW9dAjSuDXall5b0VrbjOVOPwhuHDWYspedPOsRchpodO3NjHag

Fyrrum fulltrúar í sveitarstjórn Strandabyggðar,

Jón Gísli Jónsson,
Guðfinna Lára Hávarðardóttir,
Ásta Þórisdóttir,
Pétur Matthíasson,
Jón Jónsson

DEILA