Nýtt laxasláturhús vígt í Bolungavík – 5 milljarða króna fjárfesting

Opnun Drimlu í Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Á laugardaginn var nýtt laxasláturhús Arctic Fish í Bolungavík vígt að viðstöddu miklu fjölmenni. Að sögn Daníel Jakobssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish komu milli 500 og 600 manns og skoðuðu sláturhúsið og kynntu sér húsakynnin og fullkominn tæknibúnað þess.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir verksmiðjuna vera á heimsmælikvarða og og kvaðst ánægður með áhuga Vestfirðinga af öllum fjörðum sem hafi sýnt þessu mikinn áhuga. Jón Páll benti á að um væri að ræða eina allra stærstu fjárfestingu í atvinnulífi á Vestfjörðum og hann sagðist leyfa sér að vera bjartsýnn á að friður skapist um atvinnugreinina. Það væri verkefni stjórnvalda að skapa grundvöll til þess að nýta náttúrulegar aðstæður á Vestfjörðum til framfara fyrir Vestfirðinga og landsmenn alla.

Daníel Jakobsson sagði að kostnaðurinn við laxasláturhúsið Drimlu væri um 5 milljarðar króna. Verksmiðjan væri fullbúin og tankar fyrir slóg sem reistir hafa verið við sláturhúsið verða teknir í noktun í desember. Daníel sagði að aðsóknin á laugardaginn hafi verið mikil og gestirnir hafi verið áhugasamir og spurt um húsið og tæknibúnaðinn og almennt verið jákvæðir.

Helstu verktakar voru Vestfirskir verktakar, Raftækni, Þotan, Hafþór Gunnarsson og auk Baader og Skaginn 3X. Efla sá um hönnun ásamt Perscatekt.

Ávörp fluttu Sten Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish, Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Bolungavíkur og Daníel Jakobsson. Meðal gesta voru Björn Hembre, Kjartan Ólafsson og Víkingur Gunnarsson frá Arnarlax.

Opnun Drymlu í Bolungarvík.
Opnun Drymlu í Bolungarvík.
Daníel Jakobsson við opnun Drymlu í Bolungarvík.
Verktakar fengu blómvönd í þakklætisskyni.
Víkingur Gunnarsson, Arnarlaxi færði Arctic Fish blómvönd.
Opnun Drymlu í Bolungarvík. Sten Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish, Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs í Bolungavík og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík.

Myndir: Haukur Sigurðsson.

DEILA