Karfan: Vestri vann ÍR b

Nú er afstaðin leikjatörn sem þar sem 12. flokkur karla og 12. flokkur kvenna voru að keppa.  Auk þess sem meistaraflokkur félagsins keppti í 2. deild.  Það voru því leikir föstudag, laugardag og sunnudag.  12. flokkur karla spilaði 2 leiki við sameiginlegt lið Hamars/Þórs og 12. flokkur spilaði við sameiginlegt lið Skallagríms/Snæfells.  Síðasti leikur helgarinnar var á móti B liði ÍR hjá meistaraflokki karla.

Meistaraflokkur – efstir eftir 6 umferðir

Meistaraflokkur karla spilaði við ÍR B, vel var mætt og rúmlega 150 áhorfendur í húsinu.  Leikurinn fór ágætlega af stað en jafnræði var með liðunum.   Sem fyrr var Pétur þjálfari duglegur að skipta ungu strákunum inn á.  Fremstur meðal jafningja var Jonathan Braeger sem var út um allan völl, þjófóttur í vörn og stal boltum trekk í trekk.  Einnig var hann brögðóttur á sóknarenda vallarins og áttu varnarmenn ÍR b fá svör við kappanum.  Einnig mikilvægur fyrir liðið var Sigurður Þorsteinsson, og réðu ÍR-ingar lítið við hann undir körfunni og vann hann sínar frákastabaráttu. Þá var ekki minna vesen fyrir ÍR b þegar aldursforsetinn Birgir kom inn á til að gefa Sigga smá hvíld. Birgir gaf ekki tommu eftir, enda ekki þekktur fyrir slíkt og er Birgir satt best að segja í fanta formi og mikilvægur fyrir liðið og liðsheildina.  Hittni Vestra manna var afleit framan af, þótt að Jonathan hafi sett nokkrar þriggja stiga körfur þá var of mikið af opnum skotum sem fóru í súginn.  Leikurinn var því nokkuð jafn en rétt fyrir hálfleik var varnaleikur Vestra öflugur og skilaði auðveldum körfum og smá forskoti inn í hálfleikinn.  Með öflugri vörn og góðu samspili náðu Vestra menn að yfirspila ÍR b, hraðaupphlaup og opin skot fóru að detta.  Elmar Baldursson var drjúgur undir lokin og setti niður sín skot og stýrði leiknum vel á meðan Jonathan fékk verðskuldaða hvíld. Jonathan, Sigurður og Elmar fóru fyrir okkar mönnum, yngri leikmenn búnir að skila sínu í fyrri leikjum helgarinnar en voru sprækir þegar þeir komu inná.  Stigaskor leiksins dreifðist með eftirfarandi hætti; Jonathan 40, Sigurður Þorsteinsson 14, Elmar 12, James 3, Hjálmar 3, Haukur 3, Sigurður 3, Blessed 3, Jón Gunnar 2 og Frosti 2.  Maður leiksins var að öðrum ólöstuðum Jonathan Braeger, hann hefur verið sannkallaður happafengur fyrir liðið og í dag var hann frábær í vörn og sókn.  Það eru þó litlu atriðin sem skipta máli, varnarleikurinn sem skilar stolnum boltum og hraðaupphlaupum, fiskaðir ruðningar, auka sendingin, leikmenn að fleygja sér á lausa bolta og síðast en ekki síst liðsheildin og stemmingin sem er að myndast í kringum þetta skemmtilega lið.  Lið Vestra trónir á toppi deildarinnar, taplausir eftir 6  leiki. 

góð frammistaða yngri flokka

12. flokkur karla vann báða sína leiki, fyrri leikurinn var í bikarkeppni og seinni leikurinn var í deildakeppni.  Leikirnir voru nokkuð jafnir, en Vestra strákarnir voru alltaf skrefi á undan.  Góð liðsheild einkennir hópinn og í honum er sá yngsti 13 ára og elsti 18 ára.  Þrátt fyrir þetta breiða aldursbil þá spilar liðið flottan og skemmtilegan liðsbolta.  Elstu leikmenn liðsins eru einnig leikmenn meistaraflokks karla og er leiktíðin skipulögð með það að leiðarljósi að þeir geti tekið virkan þátt í leikjum meistaraflokks karla.  Þjálfari liðsins er Jonathan Braeger og tók hann við góðu búi frá fyrri leiktíð þar sem Birgir Örn Birgisson hefur verið með þennan hóp með góðum árangri.  Stigaskorið dreifðist tiltölulega jafnt meðal leikmanna liðsins

12. flokkur kvenna lagði land undir fót og fór á Borgarnes þar sem þær mættu sameiginlegu liði Skallagríms og Snæfells. Vestri byrjaði leikinn vel og eftir 5 mínútur var staðan orðin 9-5 okkur í vil en tók þá við kafli sem þar sem illa gekk að skora á sama tíma og Vestri varð verulega undir í frákastabaráttunni. Staðan í hálfleik 33-16 fyrir Skallagrím/Snæfell.

Í upphafi þriðja leikhluta urðu Vestrastúlkur full gjafmildar og töpuðu boltanum ítrekað sem urðu undantekningalaust að auðveldum körfum fyrir heimaliðið og staðan orðin 46-18. Á þeim tímapunkti náðu Vestrastúlkur loks yfirhöndinni í frákastabaráttunni, urðu ákveðnar með boltann og tóku stjórn á leiknum. Vestri vann síðustu 15 mínúturnar 26-8 og sýndu stórkostlega spilamennsku og baráttu en því miður var það ekki nóg til að vinna upp muninn sem hafði myndist. Lokatölur 54-44 fyrir Skallagrím/Snæfell.

Atkvæðamestar hjá Vestra voru:

Jóhanna, 23 stig – 8 fráköst – 3 stoðsendingar – 4 stolnir

Elsa, 10 stig – 8 fráköst – 2 stoðsendingar

Rakel, 7 stig – 9 fráköst – 4 stoðsendingar

DEILA