Ísafjarðarbær: tekjur hafnarsjóðs aukast um 32%

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2024, sem hefur verið lögð fram aukast tekjur hafnarsjóðs um 32% frá fjárhagsáætlun yfirstandandi árs. Nú er áætlað að tekjurnar verði 697 m.kr. en þær voru áætlaðar verða 527 m.kr. í áætluninni fyrir þetta ár. Langstærstur hluti teknanna kemur frá erlendum aðilum en þeir greiða 512 m.kr. og 125 m.kr. koma af almennum hafnargjöldum. Tekjurnar aukast um 170 m.kr. milli ára eða um 32%.

Að frádrögum rekstrarkostnaði og fjármagnskostnaði gerir fjárhagsáætlunin fyrir 2024 ráð fyrir að 183 m.kr. verði eftir sem hagnaður af rekstri hafnarsjóðs. Er það nærri tvöfalt meiri afgangur er gert var ráð fyrir á þessu ári, sem voru 102 m.kr.

Fjárhagsáætlun næsta árs tekur mið af reynslutölum fyrir 2023, en tekjur voru í lok september 132,5 m.kr. hærri en áætlunin kvað á um og útlit er fyrir að afkoma hafnarinnar verði um 200 m.kr.

Það sem skýrir þessa auknu tekjur eru að tekjur af skemmtiferðaskipum reynast hærri en gert var ráð fyrir.

Að sögn Hilmars Lyngmó, hafnarstjóra eru bókaðar 206 skipakomur á næsta ári en þær voru 209 á þessu ári. Fjöldi farþega getur hins vegar aukist verulega milli ára þar sem hámarksfjarþegafjöldi á þessu ári var 184.000 farþegar en á næsta ári verður hámarksfarþegafjöldinn sem getur komið með skipunum rúmega 53% hærri eða 281.926.

Miðað við þessar tölur má vænta þess að tekjur hafnarsjóðs haldi áfram að aukast á næsta ári.

DEILA