Bolungavík: lækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði um 20%

Bolungavík.

Fyrir bæjarstjórn Bolungavíkur, sem fundar í dag, liggur tilllaga bæjarráðs um lækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,635% í 0,5% eða um 20%. Fasteignaskattur á annað húsnæði verður óbreyttur 1,32% á B húsnæði og 1,65% á C húsnæði. Lóðarleiga verður óbreytt, 1,4% á íbúðarhúsnæði og 2,5% á annað húsnæði.

Þrátt fyrir þessa áformaða lækkun munu tekjur bæjarsjóðs af fasteignaskatti hækka milli ára og verða 138,6 m.kr en eru áætluð verða 126,9 m.kr. á þessu ári. Hækkun fasteignamatsins milli ára skýrir það að mestu leyti en hækkunin var 25%.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að tillagan lýsi þeirri afstöðu bæjarráðs að auka ekki tekjur bæjarsjóðs þrátt fyrir hækkun fasteignamatsins og halda skattheimtunni sem næst óbreyttri.

DEILA