Óvenju mikið lúsaálag á Vestfjörðum

Í frétt frá Matvælastofnun kemur fram að óvenju slæm staða hafi verið undanfarnar vikur vegna lúsaálags á sunnanverðum Vestfjörðum.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar og sem viðleitni til þess að hafa lúsafjölda í lágmarki yfir veturinn hefur Matvælastofnun heimilað lyfjameðhöndlanir á átta eldissvæðum eftir lögbundna umsögn Fisksjúkdómanefndar og Hafrannsóknarstofnunar.

Um er að ræða tvö eldissvæði í Tálknafirði, fjögur eldissvæði í Arnarfirði og tvö í Dýrafirði. Svæðin verða meðhöndluð með baðlyfi annars vegar og lyfjafóðri hins vegar. 

Lúsalyf geta haft neikvæð áhrif á vistkerfi í nærumhverfi eldiskvía. Eins sýnir reynsla nágrannalanda að laxalús getur myndað ónæmi gegn lyfjum. Þess vegna er notkun lyfja í baráttunni gegn lús úrræði sem ekki skal beita nema í algerri neyð. Því hefur Matvælastofnun hvatt fyrirtæki til þess að leita leiða til að ná tökum á lúsaálaginu með öðrum aðferðum, en í þessum tilvikum var nauðsynlegt fyrir fyrirtækin að grípa inn í með lyfjameðhöndlun.

Mikilvægt er að fiskurinn sé með eins lítið af laxalús og mögulegt er í vetur til að koma í veg fyrir sáramyndun þegar gróandinn er sem minnstur sökum lágs hitastigs í sjó. Eins er mikilvægt að lúsaálag sé sem minnst í vor þegar viðkvæmur göngutími villtra laxfiska hefst, en lúsin hefur hingað til átt erfitt með að fjölga sér á veturna vegna lágs hitastigs sjávar.

DEILA