Framsókn: styðja ekki bann við laxeldi

Frá fundinum á Ísafirði í gærkvöldi.

Fram kom á almennum fundi þingmanna Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem haldinn var í gærkvöldi á Ísafirði að ekki væri stuðningur við bann við laxeldi í sjó. Stefán Vagn Stefánsson, 1. þingmaður kjördæmisins sagði að í fjölmiðlum væri óvægin umræða um sjókvíaeldi en af hálfu Framsóknar væri ekki tekið undir að banna eldið heldur lögð áhersla á að standa vel að eldinu. Efla þyrfti eftirlit og það væri tómt mál að tala um að fara að banna sjókvíaeldið. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tóku undir þetta og sagðist ekki myndi tala fyrir því að banna sjókvíaeldið. Sagði hún að aðeins einn flokkur talaði fyrir banni en aðrir flokkar legðu áherslu á að gera þetta vel. Lilja nefndi sem dæmi um mögulegar aðgerðir til að vinna gegn slysasleppingum að koma upp svokölluðum árvökum sem myndu koma í veg fyrir að eldislaxar færu upp árnar.

vilja klára kjörtímabilið

Stefán Vagn sagði að betri andi væri milli stjórnarflokkana nú en var í vor og að fundurinn á Þingvöllum fyrir skömmu hefði tekist vel. Hann sagði að Framsóknarflokkurinn vildi klára kjörtímabilið. Ríkisstjórnin væri með risaverkefni sem væri að ná tökum á efnahagsmálunum og ná niður verðbólgunni og þar með lækka vextina. Stefán Vagn, sem er formaður fjárlaganefndar lagði áherslu á að ríkisfjármálin og Seðlabankinn verði að vinna saman og þess sjái stað í fjárlagafrumvarpinu. Takmarkað svigrúm væri til útgjaldaaukningar og helsti óvissuþátturinn væru komandi kjarasamningar. Hann sagði að kröfur um milljarða króna útgjöld væru í húsnæðiskerfið og að koma þyrfti til móts við afleita fjárhagsstöðu bænda.

Halla Signý Kristjánsdóttir rakti verkefni í samgöngumálum og þar hefði á undanförnum árum stór verkefni verið unnin á Vestfjörðum. Í samgönguaætlun sem liggur fyrir Alþingi eru 9 milljarða króna fjárveitingar til Vestfjarða á fyrsta tímabili áætlunarinnar en aðeins 700 m.kr. á Vesturlandi og 740 m.kr. á Norðurlandi vestra.

Fundurinn var ágætlega sóttur og urðu líflegar umræður að loknum framsöguerindum þingamannanna.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA