Farvegur, forlög og hversdagshryllingur á Hversdagssafninu

Haustið er tími breytinga og eftir 8 ára starfsemi Hversdagssafnsins í rými gömlu skóbúðarinnar ætlum við að hreyfa okkur til og finna nýjan farveg fyrir það sem við gerum best, sem er að finna hversdaginn!

Eins og allar góðar hugmyndir þurfa þær að leggjast í smá hýði yfir veturinn svo þær nái að skjóta sterkum rótum að vori og spretta að sumri.

Við viljum bjóða bæjarbúum að marka þessi tímamót með okkur á menningarhátíð Ísafjarðar, Veturnóttum.

Veturnætur eru haldnar á fullu tungli og til að umfaðma þessar breytingar og taka á móti myrkri og huggulegheitum vetrarins bjóðum við til lokahófs á Hversdagssafninu þar sem gestir eru hvattir til að mæta í búningi sem lýsir á einhvern hátt hversdagslegum hryllingi. Það gæti verið nærbuxur sem leita út af rasskinn, sokkur sem rennur af hælnum eða hártoppur sem hefur verið klipptur of stutt.

Þá má bregða í búningslíki hlutum eins og að gleyma símanum heima, hringsóli í flugvél í Djúpinu eða missa internettengingu á fjarfundi. Þá má taka upp klassísk hversdags hryllingsstef eins og lyktina af gömlum, soðnum eggjum í nestisboxinu, óþolandi lagi sem límist á heilann eða viðbrenndum grjónagrauti á eldavélarhellunni.

Kannski hafið þið oft komið, aldrei komið, alltaf verið á leiðinni eða aldrei vitað alveg hvað sé í gangi í Hversdagssafninu en nú getið þið allavega kíkt á safnkostinn eins og hann lítur út eftir 8 ára uppbyggingu og notið hans áður en hann finnur sér nýjan farveg.

Opnum klukkan 20.00. Hefjum ferlið með spjalli klukkan 20.30 þann 28. október.

DEILA