Að sameina sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum yrði framfaraskref

Sveitarfélögin Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa undanfarið ár verið í formlegum sameiningarviðræðum. Þessa dagana standa yfir íbúakosningar þar sem íbúar skera úr um hvort af sameiningu sveitarfélaganna verður. Íbúar hafa loka orðið og atkvæðagreiðslu lýkur laugardaginn 28.október 2023.

Undirrituð hafa setið í samstarfsnefnd um sameiningarviðræður sveitarfélaganna. Í þeirri vinnu hefur verið farið yfir þær forsendur sem liggja fyrir og unnið stöðumat á kostum og göllum þess að starfa áfram í sundur eða í  sameinuðu sveitarfélagi  Haldnir voru íbúafundir þar sem íbúum gafst kostur á að koma með sitt innlegg í þá vinnu. Í þeirri vinnu var það haft til hliðsjónar að tryggja að íbúar allra svæða hefðu rödd innan hins nýja sveitarfélags, ef af sameiningu verður.Það er sameiginleg niðurstaða samstarfsnefndarinnar eftir þá vinnu sem að undan er gengið að sameiningin muni bæta þjónustu, efla stjórnsýslu og auka slagkraft til að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum. Það er líka sannfæring samstarfsnefndarinnar að með tilkomu heimastjórna verði betur tryggt að íbúar allra svæða hafi rödd í hinu nýja fyrirhugaða sveitarfélagi.

Aukið fjármagn og svigrúm til fjárfestinga

Sameining sveitarfélaganna mun leiða til sterkari stjórnsýslueiningar til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem sveitarfélögum er skylt að sinna. Hagræðing mun eiga sér stað með fækkun nefnda og kjörinna fulltrúa, reksturs upplýsingakerfa og kaupum á sérfræðiþjónustu án þess að þjónusta við íbúa þurfi að taka nokkrum breytingum. Mikilvægt er einnig að vekja athygli á því að árið 2022 voru skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa þær sömu í báðum sveitarfélögum, þ.e. 2,2 milljónir en lítillega hærri í Tálknafirði árið 2023. Skuldajöfnunarframlag Jöfnunarsjóðs tekur tillit til skulda sveitarfélaganna við sameiningu. Það er ljóst að innviðaskuldir eru í báðum sveitarfélögum, en við erum líklegri til að ná árangri í þeirri vinnu í sameinuðu sveitarfélagi heldur en í sitt hvoru lagi. Árleg framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu hækka með sameiningu um 24- 30 milljónir á ári. Að auki fá sveitarfélögin um 761 milljónir í sérstök framlög greidd úr Jöfnunarsjóði vegna sameiningarinnar. Þá fjármuni er hægt að nýta til að bæta þjónustu, auka fjárfestingu í innviðum og/eða greiða niður skuldir.

Heimastjórnir

Samstarfsnefndin er einhuga um að ein grundvallar forsenda fyrir farsælli sameiningu sveitarfélaganna er að teknar verða upp heimastjórnir. Heimastjórnir yrðu fastanefndir innan sveitarfélagsins með þann tilgang að standa vörð um rödd og sérstöðu hvers samfélags fyrir sig. Gert er ráð fyrir fjórum heimastjórnum í sameinuðu sveitarfélagi. Íbúar myndu kjósa tvo fulltrúa innan síns svæðis og sveitarstjórn skipar síðan einn sveitarstjórnarfulltrúa til að sitja í nefndinni. Heimastjórnir myndu taka virkan þátt í málum er snerta nærumhverfi síns svæðis og hafa vald til að setja mál á dagskrá hjá sveitarstjórn. Heimastjórnir taka virkan þátt í umhverfismálum, grænum svæðum og leiksvæðum sem og frístunda-, menningar- og félagsstarfi svæðanna. Þannig er tryggt að ákveðið vald verði eftir hjá íbúum hvers svæðis en ekki að allt verði miðstýrt frá sveitarstjórn og miðlægu nefndarkerfi.

Samgöngumál

Samstarfsnefndin hefur lagt mikla áherslu á nauðsyn þess að bæta þurfi samgöngur á svæðinu. Öruggt flæði íbúa í leik og starfi milli byggða- og atvinnusvæða er grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu byggðar. Íbúar í sameinuðu sveitarfélagi eiga heimtingu á að bættar verði samgöngur innan sveitarfélagsins. Samstarfsnefndin hefur fundað með þingmönnum og ráðafólki um ástand vega á svæðinu og eru Suðurfjarðagöng komin inn á samgönguáætlun. Næsta skref er að berjast fyrir því að göngin komist framar í forgangsröðinni um uppbyggingu jarðgangna. Langtímamarkmiðið eru Suðurfjarðagöng en þangað til þarf að halda áfram að berjast fyrir umbótum í vetrarþjónustu og viðhaldi á komandi misserum til að tryggja öryggi íbúa við leik og störf.

Öflugt sameinað sveitarfélag

Samstarfsnefndin hvetur alla íbúa Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar til að nýta kosningarétt sinn og taka afstöðu um hvort sameina eigi sveitarfélögin í eitt sveitarfélag eða ekki. Kosið er alla virka daga á skrifstofum sveitarfélaganna og síðan á hefðbundnum kjörstöðum laugardaginn 28. október. Allar nánari upplýsingar og gögn um sameiningarviðræðurnar og kosningarnar má nálgast inn á www.vestfirdingar.is

Það er mat samstarfsnefndar að það væri framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag. Þannig verður til öflugt sveitarfélag með sterkari rekstrargrundvöll sem getur bætt þjónustu við íbúa og með aukinn slagkraft.

Jón Árnason, formaður samstarfsnefndar, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð

Lilja Magnúsdóttir, varaformaður samstarfsnefndar, oddviti Tálknafjarðarhrepps

Guðrún Eggertsdóttir, bæjarfulltrúi í Vesturbyggð

Jenný Lára Magnadóttir, hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps

Jóhann Örn Hreiðarsson hreppnefnd Tálknafjarðarhrepps

Þórkatla Soffía Ólafsdóttir bæjarfulltrúi í Vesturbyggð.

DEILA