Minning: Grétar Arnbergsson

Grétar Guðröður Arnbergsson fæddist í Bakkagerði á Borgarfirði eystra hinn 4. desember 1942.  Hann andaðist á heimili sínu, Ránargötu 12 á Flateyri, 22. ágúst 2023.  Foreldrar hans voru hjónin Jóna Stefanía Ágústsdóttir og Arnbergur Gíslason.  Foreldrar Jónu Stefaníu voru Guðrún Margrét Stefánsdóttir í Úraníu, Desjamýrarsókn og Ágúst Ólafsson bátsformaður í Garði í sömu sókn, en fósturforeldrar hennar hjónin á Ósi í Borgarfjarðarhreppi, N-Múlasýslu, þau Guðný Sigurrós Jóhannsdóttir og Sigurður Sveinn Sveinsson.  Foreldrar Arnbergs voru Margrét Finnbogadóttir og Gísli Björnsson á Eyvindará í Eiðasókn, S-Múlasýslu.

 Stefanía og Arnbergur, áttu síðast heima í Sandgerði. Grétar var þriðji í röðinni af sjö systkinum:  Guðný Sigríður (1936-2019), Margrét Lilja (1939), Gísli (1946), Jóhanna  (1947), Friðbjörg Ósk (1954) og Rúnar Ágúst (1959-2001). 

Að langfeðgatali var Grétar afkomandi síra Jóns Halldórssonar á Völlum í Svarfaðardal, er þótti fyrirtaks prestur.  Meðal barna hans og frú Guðfinnu Jónsdóttur frá Krossum voru prestarnir síra Þórður á Völlum og síra Jón á Myrká.

               Grétar fór ungur á sjóinn, en lauk sjómannsferlinum á Flateyri árið 1980.  Eftir það tók hann að vinna á gröfum fyrir Flateyrarhrepp.  Fyrsta grafan var lítil og lipur, af gerðinni Case, en dugði Grétari vel, enda var hann bæði verklaginn og verkhygginn.  Hann starfaði mikið fyrir Póst og síma og Orkubú Vestfjarða.  Þá gróf hann fyrir háspennulínunni á Hvilftarströnd, rúmlega 5 kílómetra leið, frá Neðra-Breiðadal og út á Flateyri.  Einatt var vettvangurinn á fjöllum uppi, á Breiðadal, á Klofningnum milli Súgandafjarðar og Önundarfjarðar og á Þverfjalli fyrir  botni Breiðadals.  Oft var kallað á Grétar til viðgerða um  vetur; þá gat verið kaldsamt.  Seinna eignast  hann ítalska Veneri-gröfu, 12 tonna, með 115 hestafla vél, feykilega afkastamikla vinnuvél.

               Grétar var bráðvel gefinn og hæfileikaríkur.  Hann var með afbrigðum vingjarnlegur maður og háttvís í viðmóti og bar af sér góðan þokka í hvívetna.  Framkoma hans var ávallt með gleðibragði og það er til marks um vinsældir hans á Flateyri, að um skeið var þar við lýði unglingahljómsveit, er bar nafnið “Grétar á gröfunni”. Aðfluttum hjónum verður það ógleymanlegt, er þau sóttu kvöld eitt samkomu á veitingastofunni Vagninum, að Grétar, glæsilega sparibúinn og hofmannlegur í fasi, fruktaði sig og tók á móti þeim í anddyrinu líkt og þau væru konungshjónin af Krít. Eins og margir gáfaðir og tilfinningaríkir menn kaus hann iðulega á síðari árum að líða inn á hinar mjúku lendur glaðningarinnar.

               Eiginkona Grétars var Salóme Jóna Jónsdóttir, f. 24. nóvember 1940, d. 3. september 2003.  Salóme var dóttir Jóns Guðmundar Salómons Jónssonar, f. 24. febrúar 1913, d. 19. júlí 2010, sjómanns á Flateyri og konu hans, Sigurrósar Guðbjargar Jarþrúðar Guðmundsdóttur frá Mosvöllum, f. 24. ágúst 1913, d. 16. júlí 1990.  Salóme var fimmta í röð tíu systkina. Þau eru: Hjálmar Ingi, f. 2.7. 1934, d. 2.6. 2001; Guðbjörg Svandís, f. 26.8. 1935; Guðmundur Jónas, f. 5.11. 1936, hann dó í frumbernsku; Guðmunda Valborg, f. 10.11. 1937; Guðrún Rósborg, f. 6.1. 1942; Ingibjörg Birna, f. 8.4. 1943; Magnfríður Kristín, f. 12.6. 1945, Ólafur Ragnar, f. 19.4. 1951, og Björn Ágúst, f. 5.8. 1957.

Dóttir þeirra Grétars og Salóme er Ásdís Erla Grétarsdóttir á Flateyri, f. 18. september 1963.

Seinni kona Grétars var Guðmunda Guðrún Björgvinsdóttir á Flateyri, f. 23. júní 1942.

               Minnumst þess, er vinir kveðja, að við getum ekki misst, nema af því að okkur var gefið.   Sorgin er hluti af því að hafa fengið að unna, og hún er eðlileg viðbrögð, þegar kvaðst er að sinni.

               Guð blessi minningu Grétars Arnbergssonar.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA