Hörður: handboltinn fer á fullt aftur

Lið Harðar, sem féll úr efstu deild karla, á síðasta tímabili hefur leik í Grill 66 deild karla á laugardaginn með leik gegn ungmennaliði Víkings. Hefst leikurinn kl 16. Þá á 4. fl. karla (leikmenn 16 ára og yngri) leik gegn Selfossi kl 11.30 sama dag. Báðir leikir eru á Torfnesi.

Liðið er nokkuð breytt frá síðustu leiktíð. Þannig hafa fjölmargir leikmenn horfið á brott, Rolands Lebedevs til Þýskalands eftir 4 góð ár hjá Herði þar sem hann spilaði með félaginu í 2. deild,  1. deild og svo úrvalsdeild, stórskyttan Leo Renaud-David gekk til liðs við félagi í Kuwait, Jón Ómar Gíslason til Gróttu, Alexander Tatarintsev, rússneski risinn, hefur lagt skóna á hilluna og félagið ákvað að semja ekki aftur við brasilíska markmanninn Emanuel Evangelista.

Ásgeir Óli Kristjánsson, Þráinn Ágúst Arnaldsson, argentínumaðurinn Tadeo Salduna, Patrick Bergmann Kaltoft, spánverjinn Mikel Aristi og Elías Ari Guðjónsson hafa allir lagt skóna á hilluna, að minnsta kosti tímabundið.

Lettneska skyttann Guntis Pilpuks var leyst undan samningi eftir langvinn meiðsli. Japaninn skemmtilegi Suguru Hikawa (Hika) er farinn til síns heima eftir 2 ára lán frá Wakunaga í Japan.

Þá óskaði þjálfarinn Carlos Martin Santos eftir að vera leystur undan samningi eftir erfitt ár í úrvalsdeildinni. Hafði hann þá þjálfað liðið í 4 ár.

Við liðinu hefur tekið Endre Koi frá Ungverjalandi. Hann hefur komið inn sem ferskur blær í starfið enda jákvæður og hress með eindæmum. Hann kemur hingað til Ísafjarðar með konu og hund og ætlar sér stóra hluti. Hann er vel menntaður þjálfari með mikla reynslu þrátt fyrir að vera einungis 36 ára.

Honum til aðstoðar í meistaraflokknum eru Jóhannes Lange og Anton Freyr Traustason. Endre mun sjálfur þjálfa 4., 5. og 6. fl. karla. Anton Freyr mun jafnframt vera aðstoðarþjálfari í 4. fl. karla. Pálína Ingibjörg Blöndal Jónmundsdóttir og Magðalena Jónasdóttir munu þjálfa kvennaflokka félagsins í vetur og yngstu iðkendurnir í 8. fl. verða undir umsjón nafnanna Axels Sveinssonar og Axels Vilja Bragasonar.

Mikil fjölgun hefur átt sér stað í yngri flokkum og verður félagið með lið í Íslandsmóti í 7 flokkum í vetur. Sérstaklega ánægjulegt að sjá þá fjölgun sem er að eiga sér stað í kvennaflokkum félagsins.

Í meistaraflokki félagsins í vetur verða áfram Daniel Wale Adeleye, Axel Sveinsson, Óli Björn Vilhjálmsson, Sudario Eiður Carneiro, Stefán Freyr Jónsson, Endijs Kusners, lettinn sem hefur verið hér sl. 4 ár og brasilísku leikmennirnir Zeca, Guilherme og Jhonatan. Þá munu Albert Marzelíus Hákonarson, Gunnari Ingi Hákonarson og Guðmundur Brynjar Björgvinsson allir taka sín næstu skref í meistaraflokki í vetur. Eru þeir allir að skila sér úr unglingastarfi félagsins. Þá standa vonir félagsins til þess að nokkrir leikmenn úr 4. fl. karla muni taka skrefið upp í vetur og spila með meistaraflokki. Félagið hefur samið við tyrknesku stórskyttuna Tugberk Cetkin sem á að baki 122 landsleiki fyrir Tyrkland. Þá hafa lettnesku leikmennirnir Dominiks Kozlovski og unglingalandsliðsmaðurinn Daniels Mikijanskis samið við félagið fyrir komandi leiktíð og eru mættir á Ísafjörð. Auk þeirra hafa bæst í hópinn þrír ungir leikmenn frá Úkraínu sem allir spila með yngri landsliðum þjóðar sinnar, markvörðurinn Zhenya Velmozhko, 18 ára, hægri skyttan Danil Zorkin, 20 ára og 20 ára miðjumaður Artem Yankovskiy. Jafnframt hefur japaninn Kasa (Kenya Kasahara) mætt aftur á Ísafjörð eftir eitt ár í Póllandi.

DEILA