Vatnsfjörður: Hafrannsóknarstofnun furðu lostin

Kort af rannsóknasvæðinu.

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar vegna umsóknar Orkubús Vestfjarða um rannsóknarleyfi vegna áforma um virkjun í Vatnsfirði í Vesturbyggð segir að „furðu sæti að sótt sé um leyfi til rannsókna með hugmyndir um fyrirhugaðar vatnsaflsvirkjanir innan friðlýsts svæðis.“ Engu að síður telur Hafrannsóknarstofnun ekki ástæðu til að leggjast gegn rannsóknarleyfinu miðað við þær forsendur sem Orkubú Vestfjarða gefur fyrir umsókninni.

Rakel Guðmundsdóttir, sérfræðingur skrifar undir umsögnina og sagði í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að ástæða þessara ummæla sé að svæðið sem rannsaka á sé friðland. Þá sé hlutverk stofnunarinnar ekki einungis rannsóknir á málefnum hafsins heldur einnig í málefnum ferskvatns.

Fram kemur í erindi Orkubús Vestfjarða til Orkustofnunar frá 2021, þar sem sótt er um rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjanir í Vatnsfirði og Kjálkafirði, að Orkubúið hafi þegar gilt rannsóknarleyfi innan núverandi friðlands, vestan megin við Vatnsdalsvatn og til og með að vatnasviði Stóragilsár en að sótt er um rannsóknarleyfi norðan til við það í Vatnsdal, einkum landsvæði sem tilheyri Glámuhálendinu.

Þá segir í umsókninni að allt frá 1976 hafi verið rannsóknir í gangi undir ýmsum nöfnum, en oftast undir nafninu Vatnsfjarðarvirkjun. Nauðsynlegt sé að uppfæra þær rannsóknir og að stærð og umfang vatnsorkuauðlindarinnar sé þekkt áður en núgildandi friðlýsingarskilmálar Vatnsfjarðar frá 1975 verði uppfærðir í tengslum við áform um stofnun þjóðgarðs sem nái m.a. yfir friðlandið í Vatnsfirði. Mikilvægt sé að nýta möguleika til virkjunar á svæðinu, að tekni tilliti til umhverfissjónarmiða, ef rannsóknir sýna að virkjun sé fýsilegur kostur.

Til skoðunar sé m.a. að kanna að flytja vatn frá Kjálkafirði yfir í Vatnsfjörð með jarðgöngum sem myndi bætast við virkjun sem nýti afrennsli vatnasviðs Hólmavatns og Flókavatns og fallið virkjað niður í Vatnsdalinn.

Orkustofnun féllst á umsóknina og veitti rannsóknaleyfi til loka árs 2026 til þess að framkvæma rannsóknir og mælingar á tilgreindu svæði í samræmi við fyrri áfanga í kynntri rannsóknaáætlun sinni.

DEILA