Gylfi Ólafsson: hugurinn leitar í önnur tækifæri á Vestfjörðum

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur fengið lausn frá störfum að eigin ósk frá og með 16. október næstkomandi. Skipan hans í embætti til næstu 5 ára var framlengd í sumar og nýlega fékk hann námsleyfi í nokkra mánuði og hefur hafið töku þess.

Gylfi sagði í samtali við Bæjarins besta hann hefði farið að líta yfir farinn veg og sjá fyrir sér næstu ár í starfi og hafði komist að þeirri niðurstöðu að hugurinn stefndi að öðru og að hann vildi vera í uppbyggingu á vestfirsku atvinnulífi. Hefði honum þá fundist hreinlegast að segja upp þar sem að hann myndi ekki koma aftur að loknu námsleyfinu. Hvað við tekur er ekkert ákveðið ennþá sagði Gylfi.

Það væri líka góður tími til þess að fá annan forstjóra, framundan væri að semja stefnuáætlun fyrir stofnunina fyrir árin 2024-26 og fjárlagatillögur fyrir næsta ár.

Í námsleyfinu sagðist Gylfi myndu taka saman efni um covid tímann á stofnuninni, einkum mars og apríl 2020 og svo væri á dagskránni að skoða heilsuhagfræði hinnar nýju offitulyfja.

DEILA