Gufudalssveit: undirbúningur að brúarsmíði boðinn út

Vegagerðin hefur auglýst úboðið: Vestfjarðarvegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar. Í því felst nýbygging Vestfjarðarvegar á um 3,6 km kafla og bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Verkið er fyrsti liður í þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Boðnar eru út fyllingar yfir firðina tvo, gerð vinnuplana og bygging 119 metra langrar bráðabirgðabrúar yfir hluta Gufufjarðar. Þessar framkvæmdir eru nauðsynlegur undirbúningur fyrir næsta útboð, sem verður bygging brúa yfir þessa tvo firði segir í tilkynningu Vegagerðarinnar. Vinnu við verkið skal ljúka í lok september árið 2025.

Ekki hefur verið staðfest hvenær næsti áfangi verður boðinn út en í drögum að samgönguáætlun er miðað við að byggingu brúanna verði lokið árið 2027. Þangað til þurfa vegfarendur að aka um Ódrjúgsháls.

DEILA