Fossaveisla í einstöku friðlandi Vatnsfjarðar

Undanfarið hefur 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði verið töluvert í umræðunni, og lesa má á síðum BB að Orkubú Vestfjarða telur hana nánast leysa orkuvanda Vestfjarða.

Þessari virkjanahugmynd er ég algjörlega óssamála eins og ég hef rakið í greinum á bæði visir.is https://www.visir.is/g/20232451673d/feluleikur-med-fossa-i-einstoku-fridlandi) og í BB: https://www.visir.is/g/20232455942d/orkubusstjora-vestfjarda-svarad

Ég hef saknað þess í umræðunni, og sérstaklega í svargrein orkubússtjóra, að þar er ekkert minnst á fegurð svæðisins. Þetta á sérstaklega við um fossana sem myndu hverfa með virkjun, en einnig gljúfrin sem sætu eftir berrössuð.

Fossarnir í innanverðum Vatnsdal skipta tugum. Þessi fossatvenna er einn af helstu gullmolum friðlandsins. Mynd: TG 

Það er erfitt að þykja vænt um eitthvað sem maður þekkir ekki. Mig grunar að margir þeir sem tjáð hafa sig í umræðunni um Vatnsdalsvirkjun hafa aldrei komið þangað, a.m.k. ekki innst í dalinn þar sem fossarnir og gljúfrin eru. Sem er miður. Auk þess er myndefni úr friðlandinu af mjög skornum skammti, sem gerir fólki erfiðara fyrir að taka afstöðu hverju yrði fórnað með virkjun.

Ég skora því á sem flesta Vestfirðinga að kíkja á myndirnar í fyrrnefndri grein minni á visir.is, enda svæðið oft ekki sýnt í réttu ljósi og myndir sem birtast í fjömiðlum beinlínis villandi.

Þessi mynd hefur verið notuð í fjölmiðlum af þeim sem vilja Vatnsfjarðarvirkjun og sýnir staðsetningu virkjanahússins. Fossarnir og gljúfrin sjást ekki, og sama má segja um skóginn.  

Best er þó að leggja á sig rúmlega tveggja klukkustunda gönguferð til að sjá fossaveisluna með eigin augum. Þessir fossar hafa glatt margar kynslóðir Íslendinga alveg frá landnámi Hrafna-Flóka – og fá vonandi að fá að vera í friði, enda mitt í friðlandi sem var friðað af ríkri ástæðu.

Tómas Guðbjartsson

Höfundur er Vestfirðingur, læknir og umhverfisverndarsinni  

Gljúfrin sem fóstra fossana eru einstök og í Vatnsdalsá er mikið af bæði lax og bleikju. Gljúfrin klæðir síðan snotur birkiskógur sem styður við ríkulegt fuglalíf og flóru. Mynd: ÓMB. 

DEILA