Enn um orkuskort á Vestfjörðum

Sérstaða orkumála á Vestfjörðum í samanburði við aðra landshluta er viðvarandi aflskortur á grænni orku og takmarkanir á afhendingaröryggi grænnar orku um flutningskerfið. Það er  ánægjulegt að Tómas Guðbjartsson læknir lýsir því yfir í grein sinni á Vísi 29. ágúst sl. að hann sé sammála Orkubúi Vestfjarða um þennan orkuvanda sem Vestfirðingar standa frammi fyrir í raforkumálum.  Aðal meinið er í raun aflskortur innan Vestfjarða sem vel má ráða bót á.
 

Í nútímaþjóðfélagi hljóta það að teljast mjög brýnir samfélagshagsmunir að bæta þar úr.  Aukin áhersla á loftslagsmál og skuldbindingar Íslands í þeim efnum auka enn á mikilvægi þess að leysa úr þeim vanda sem birtist okkur í mikilli notkun dísilknúins varaafls á Vestfjörðum. Orkubú Vestfjarða lítur einmitt á það sem hlutverk sitt að koma með þær lausnir. 

Tómas heldur því ranglega fram að Orkubúið hafi beitt sér gegn þjóðgarði á Vestfjörðum. Hið rétta er að tillaga Orkubúsins var einmitt að friðlýsingarskilmálar þjóðgarðs tækju tillit til nauðsynlegra innviða vegna orkuflutnings og vegna orkunýtingar innan hans eins og kemur t.d. fram í grein minni á Bæjarins Besta(bb.is) þann 13.05. 2021.  Tómas hefur nú tekið undir þær ábendingar að hluta með því að hvetja til lagningar á annarri Vestfjarðarlínu við hlið þeirrar gömlu.  Óbreytt tillaga að skilmálum þjóðgarðs hefði hins vegar ekki leyft lagningu þeirrar línu.

Það er hins vegar öllu verra að Tómas heldur ennþá fast við sinn keip að litlar smávirkjanir nægi vestfirsku samfélagi sem varaafl og nefnir sem dæmi Hvestuvirkjun í því sambandi.  Þessi fullyrðing virðist sett fram algjörlega að óathuguðu máli eða fullkominni vanþekkingu, enda er virkjunin alls ekki fær um að skila fullu afli nema þegar rignir duglega og er fjarri því að duga sem varaafl fyrir eitt, hvað þá tvö bæjarfélög.  Þar verða dísilknúnar varaaflsstöðvar að koma til.  Sjálfsagt er að upplýsa lesendur hér um hvernig hin raunverulega staða er.

„Smávirkjanir“ á Vestfjörðum eru ekki áreiðanlegt varaafl
Orkubú Vestfjarða kaupir orkuframleiðslu allra smávirkjana/bændavirkjana á Vestfjörðum sem eru 0,15 MW eða stærri.  Þær eru 8 að tölu á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum og má lesa upplýsingar um framleiðslu þeirra í ársskýrslu orkubúsins.  Ástimplað afl þeirra er 5,8 MW, en nýting þeirra er um 55% sem þýðir að meðalafl þeirra er líka 55% eða 2,9 MW.  Í frostatíð á veturna getur aflið sem fæst frá þessum virkjunum verið mun minna en meðalaflið, en þá er einmitt aflþörf raforkukerfisins mest.  Hið sama gildir í þurrkum á sumrin.  Samanlagt augnabliksafl þessara 8 virkjana þegar þetta er skrifað er einungis 1,8 MW, en engin þeirra hefur miðlunarlón og því ekki hægt að auka afl þeirra tímabundið umfram það sem vatnsrennsli að þeim leyfir.  1,8 MW eru um 4% af hæsta afltoppi ársins á Vestfjörðum í dag.  Afltoppurinn á svo eftir að hækka vegna orkuskipta og aukinnar atvinnustarfsemi.

Samanlagt augnabliksafl stýranlegra virkjana Orkubúsins, sem hafa miðlunarlón og varaaflsstöðva Orkubúsins og Landsnets sem ræstar eru við útslátt Vesturlínu er yfir 30 MW auk þess sem afl olíukatla sem taka við af rafkötlum hitaveitunnar við útslátt Vesturlínu er 20 MW.

Aðrir virkjunarkostir en Vatnsdalur
Tómas telur upp ýmsa virkjunarkosti í grein sinni sem til greina komi  og nefnir þar m.a. Tröllárvirkjun í Vattardal 13,5 MW, sem Orkubúið hefur verið að skoða og setti inn í rammaáætlun 4.  Tröllárvirkjun er hins vegar óhagkvæmur kostur sem er ekki hægt að ráðast í nema miðað sé við mun hærra raforkuverð til neytenda.  Virkjunin er auk þess talsvert lengra frá næsta tengipunkti Landsnets en Vatnsdalsvirkjun og mun að mati Orkubúsins augljóslega hafa meiri umhverfisáhrif en virkjun í Vatnsdal.  Aðrir virkjunarkostir yfir 10 MW sem Tómas nefnir eru ekki á forræði Orkubúsins, en einn þeirra, Hvanneyrardalsvirkjun, er í raun að nýta að hluta til sama vatnasvæði og áðurnefnd Tröllárvirkjun og virkjanirnar verða því varla byggðar báðar enda færi Tröllárvirkjun þá líklega niður í 9MW og yrði enn óhagkvæmari.  Þá eru sumir virkjunarkostirnir háðir því að Landsnet byggi nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi sem hefur skv. kerfisáætlunum Landsnets verið háður því að Hvalárvirkjun verði byggð. 

Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði í umhverfismat
Orkubú Vestfjarða er með rannsóknarleyfi fyrir Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði (9,9 MW), en í mars 2023 náðust samningar við landeigendur Gilsstaða í Steingrímsfirði um nýtingu vatnsréttinda, eins og fram kom í fjölmiðlum.  Virkjunin hefur einnig verið kynnt á fjölmennum íbúafundi á Hólmavík.  Virkjunin er nú í lögformlegu skipulagsferli og hefur matsáætlun fyrir hana þegar verið lögð fram, kynnt og umsagna leitað.  Skipulagsstofnun skilaði áliti sínu þ. 24. ágúst 2023.  Umhverfismat fyrir virkjunina er þegar hafið.  Virkjunin er lykillinn að bættu afhendingaröryggi raforku á Ströndum og má reikna með því að virkjunin hafi jafn mikil jákvæð áhrif á afhendingaröryggið þar og Vatnsdalsvirkjun hefur á afhendingaröryggið á norður- og suðursvæði Vestfjarða.   Virkjunin fellur ekki undir lög um rammaáætlun.

Umhverfisáhrif verði skoðuð
Það er markmið Orkubús Vestfjarða með skriflegri beiðni sinni til ráðherra, að friðlýsingarskilmálum í Vatnsfirði verði breytt í þá veru að verkefnastjórn Rammaáætlunar geti tekið virkjunarkostinn til skoðunar.  Eins og áður hefur komið fram eru sjáanlegar framkvæmdir mestar á efra virkjunarsvæðinu í 250 til 500m hæð, vegna stíflugerðar við Hólmavatn og Flókavatn.  Fallpípan frá inntakslóni er hins vegar niðurgrafin á hálendinu.  Pípan verður síðan boruð niður í stöðvarhelli, en að honum munu liggja aðkomugöng og frárennslisgöng, en op þeirra verða sjáanleg niðri í Vatnsdal.  Að stöðvarhúsi þarf að framlengja þann 4 km veg sem liggur inn Vatnsdal um 2 km.  Veglagningin fer um grasi vaxið svæði en ekki skóglendi eins og sjá má á mynd frá Orkubúinu sem Tómas birti með grein sinni. 

Mat á umhverfisáhrifum af Vatnsdalsvirkjun liggja ekki fyrir þar sem virkjunin hefur ekki farið í umhverfismat sem að sjálfsögðu er lögbundið ferli þar sem öllum gefst kostur á að koma með sínar athugasemdir.

Þrátt fyrir að Orkubúið hafi á því skoðun að umhverfisáhrif í Vatnsdal séu mun minni en annarra virkjunarkosta þá dugir það auðvitað ekki til, því mat á umhverfisáhrifum mun alltaf verða unnið af þar til bærum sérfræðingum í lögformlegu ferli framkvæmdarinnar.  Orkubú Vestfjarða telur að Vatnsdalsvirkjun eigi einmitt fullt erindi í slíkt umhverfismat.

Sóknarfæri Vestfirðinga
Í sameiningu munu Vatnsdalsvirkjun og Kvíslatunguvirkjun gjörbreyta afhendingaröryggi raforku um alla Vestfirði og verða lykillinn að því að draga úr straumleysi notenda vegna straumleysis í flutningskerfinu um 90%.  Þær munu jafnframt draga úr brennslu dísilolíu til raforkuframleiðslu um 90%.  Á sama tíma eykst sjálfbærni svæðisins í orkuöflun sem mun tryggja Vestfirðingum mikil sóknarfæri.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri
Orkubús Vestfjarða

DEILA