Eitt sunnudagskvöld fyrir nokkrum vikum var sýnd í Ríkissjónvarpinu ákaflega fróðleg og skemmtileg mynd um tilurð og byggingu Byggðalínunnar. Farið var yfir upphaf framkvæmdarinnar, rætt við þá sem komu að byggingunni og sýndar gamlar myndir frá þessum tíma. Þetta var 132 kV tréstauralína sem lögð var hringin í kringum landið, nei bíðum við, hún var ekki lögð hringinn í kringum landið.
Úr Hrútafirði var lögð ein lína með viðkomu í Glerárskógum, Geiradal, Mjólkárvirkjun, Breiðadal og þaðan til Bolungarvíkur. Rarik og síðan seinna Orkubúi Vestfjarða var falið að taka við boltanum.
Áður en þessi lína var lögð hafði Rarik á árunum í kringum 1960 í tengslum við byggingu Mjólkárvirkjunar, lagt 33 kV línu frá Mjólká á Hrafnseyri þar sem hún skiptist í tvær línur. Önnur fór í sæstreng til Bíldudals, þaðan að Keldeyri við Tálknafjörð og endaði á Patreksfirði. Hinn leggurinn frá Hrafnseyri til Þingeyrar, þaðan til Breiðadals í Önundarfirði og að lokum til Ísafjarðar. Út frá þessum stöðum lágu svo línur í allar áttir um sveitir, þorp og bæi. Þessi lína tengdi saman raflínukerfið frá Barðaströnd um Vestfirði til Bolungarvíkur og Súðavíkur. Inndjúpið var eyja í kerfinu ásamt Strandasýslu.
En svo við höldum nú áfram með byggðalínuhringinn sem þessi pistill byrjaði á. Hingað var aldrei gerður hringur, hingað var komið með enda. Og nú er kannski kominn tími til að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri við hæfi nú á 50 ára afmæli upphafs byggðalínu hringsins. Að stefna á að á 50 ára afmæli Vesturlínu, árið 2028, ljúkum við þessum byggðalínu hring með hringtengingu um Vestfirði?
Því eins og bent hefur verið á í umræðunni um byggingu Vatnsfjarðarvirkjunar við Flókalund. Er línan úr Hrútafirði að nálgast fimmtíu ára aldur. Og þó Landsnet sinni viðhaldi hennar með mikilli prýði, er hún samt að verða gömul. Því er, óháð öllum virkjunaráformum, löngu tímabært að klára það sem byrjað var á fyrir 50 árum.
Við megum ekki heldur gleyma því að flestar vararafstöðvarnar á Vestfjörðum eru komnar til ára sinna. Af 30 MW uppsettu afli í dieselvélum á Vestfjörðum er sennilega rúmur helmingur eldri en 40 ára. Af þessum 30 MW munar mest um vélar Landsnets í Bolungarvík 11 MW sem eru að nálgast 10 ára aldur. Við hljótum að vona að ekki verði reist fleiri diesel raforkuver og við verðum vel tengd við afganginn af Íslandi því þó virkjað verði í Vatnsfirði þurfum við samt að fá hringtengingu um Vestfirði.
Með kærri kveðju úr 101 Reykjavík
Henry JH Bæringsson
Fæddur og uppalinn á Ísafirði og fyrrum starfsmaður Orkubús Vestfjarða í tæp 40 ár.