04.06.96 – Skeiðisvöllur, Bolungarvík

Það er þriðjudagurinn fjórði júní árið 1996. Undirritaður er 10 ára í bíl sem keyrir Óshlíðina í átt að Bolungarvík. Framundan er leikur UMFB og BÍ í Mjólkurbikar karla. Peningalyktin tekur á móti manni í öllu sínu veldi, það er logn og helvítis mý að þvælast í brekkunni á Skeiðisvelli. Hún er full af fólki. Allir helstu vélbyssukjaftar á norðanverðum vestfjörðum eru mættir að styðja sín lið. Það er allt til alls fyrir skemmtun á heimsmælikvarða.

Svo verður raunin. Haukur Benediktsson kemur Bolvíkingum yfir en Dragan Stojanovic jafnar úr vítaspyrnu rétt fyrir hlé. Stefàn Arnalds kemur heimamönnum síðan aftur yfir áður en varamaðurinn Friðrik Böðvar Guðmundsson jafnar rétt fyrir leikslok. Það er framlengt, ennþà jafnt. Það er farið í dramatíska vítaspyrnukeppni sem Bolvíkingar vinna á endanum. Ellefu spjöld fóru á loft í leiknum, tíu gul og eitt rautt. Björn Þór Ingimarsson fagnar manna mest. Ég man að mér þótti skrítið að sjá hann spila með UMFB. Hann hafði nefnilega ári áður þjálfað mig á sumarnámskeiði BÍ. Þar spurði hann mig fyrir framan öll börnin með hvaða liði ég héldi með í enska boltanum. Svarið var Arsenal og hann hló sig máttlausan, klappaði mér á bakið og sagði mig hugrakkan að segja frá þessu. Haukur Ben var þarna í UMFB og Pétur Jóns í BÍ, það var margt sem manni fannst skrítið þegar rígurinn var ennþá til staðar.

En þennan þriðjudag hugsaði ég með mér, þetta langar mig að gera. Spila með BÍ í þriðju deild karla, Vestfjarðariðli. Þetta voru þvílíkar hetjur fyrir manni og heimurinn ekki stærri en þetta, bara norðanverðir Vestfirðir. 

Í dag eigum við sameiginlegt lið sem á möguleika að komast upp í efstu deild. Aðstaðan litlu betri en árið 1996 en liðið okkar er sem stendur sextánda besta lið landsins í fjölmennustu íþróttinni. Liðið er mikið til skipað aðkomumönnum eins og önnur lið í efstu og næstefstu deild í fótbolta, líkt og liðin okkar hér fyrir vestan í handbolta og blaki. En við værum ekki að halda þessu liði úti nema inn á milli væru heimastrákar sem eru tilbúnir að spila og æfa á þessum styrkleika. Það skiptir ungt íþróttafólk miklu máli að hér sé alvöru lið sem hægt er að stefna á að spila með ef þú ert tilbúin að leggja á þig vinnuna sem til þess er krafist. Það er sorglegt að vita til þess að 10 ára krakki árið 1996 hafi ætlað sér að verða leikmaður í neðstu deild á Íslandi og spila aðeins í sínu héraði við nærliggjandi sveitarfélög. Hér er sem betur fer búið að hækka rána.

Einn helsti styrkleiki svæðisins er hvað það er margt í boði – fótbolti, handbolti, körfubolti, blak, gönguskíði, sund, tónlist, leiklist og fleira til. Það getur því verið krefjandi að styðja við allt. Hef einnig heyrt að fólk nenni ekki á leik því það þekki svo fáa í liðinu. Ég vona að fólk í Kristiansand hafi mætt á völlinn þó að aðkomumaðurinn Matthías Vilhjálmsson hafi verið í liðinu, eða fólkið í Sandefjord þegar útlendingurinn Emil Pálsson mætti þangað eða stuðningsmenn Helsingborg þegar Andri Rúnar Bjarnason raðaði inn mörkunum. Það skiptir engu máli hvaðan gott kemur. Í dag eru fimm Vestfirðingar að spila í Bestu deildinni og eru uppaldir Vestra strákar. 

Ég vil því hvetja alla að styðja við vestfirska knattspyrnu og mæta á völlinn á miðvikudaginn, klukkan 16:30, þegar lið Fjölnis kemur í heimsókn í umspili um laust sæti í Bestu deild karla að ári. Þá vonandi verður einnig kvennalið frá Vestra að keppa í Íslandsmóti sumarið 2024. Áfram Bláir!

Ívar Pétursson

Höfundur er brottfluttur Ísfirðingur, á bara deildarleiki í neðstu deild og gjaldkeri í stjórn meistaraflokks Vestra í knattspyrnu.

Áhugasamir um bikarleikinn 1996 þá er hér leikskýrsla leiksins:

https://www.ksi.is/mot/leikskyrsla/?leikur=254431

DEILA