Minning: Guðmundur Jón Sigurðsson

f. 1. mars 1959 – d. 2. ágúst 2023.

Jarðsunginn frá Bústaðakirkju í Reykjavík, föstudaginn 11. ágúst 2023.

Fallega, litla þorpið á Vestfjörðum, þar sem oft er svo gott veður, en þar sem líka getur orðið svo mikið fannfergi á veturna, að ekki er fært eftir götunum, fyrr en búið er að moka sköflunum burt með jarðýtum og snjóblásurum.  Það stendur á sjávarkambi undir bröttu fjalli.  Þegar sólin skín á mjallhvíta fönnina og himininn er blár, er oft gaman að horfa á fjöllin og hafið, sem er eins og þúsund litlir speglar.  Stundum heyrist lítið annað en lágvært sog öldunnar, jarmur í sjófuglinum eða krunk í hrafni.  Og svo máske skellir í mótor fiskibáts.

               Þegar skammdegið er mest, sér ekki til sólar í margar vikur.  En eftir nýjárið kemur blessuð sólin, sem elskar allt, aftur í ljós eins og svolítil gyllt rönd fyrir ofan brún fjallsins.  Þá eru bakaðar pönnukökur og drukkið sólarkaffi.

               Guðmundur Jón fæddist í Reykjavík 1. mars 1959, sonur hjónanna Erlu heitinnar Ragnarsdóttur og Sigurðar Sigurdórssonar vélstjóra.

Móðir Guðmundar, Sigríður Erla Ragnarsdóttir, fæddist í Reykjavík, skírð í Viðey á Kollafirði,  þar sem foreldrar hennar bjuggu búi, þau Þórunn Gróa Guðmunda Guðmundsdóttir, sem fæddist í Mosdal í Önundarfirði, og Ragnar Gíslason, vélamaður í Reykjavík, sem ættaður var frá Stakkhamri í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu. 

Foreldrar Þórunnar voru hjónin Jónína Jóhanna Kristjánsdóttir frá Breiðadal neðra í Flateyrarhreppi og Guðmundur Jóhannesson frá Mosdal.  Foreldrar Jónínu voru Kristján Jónsson og Kristín Vigfúsdóttir, Eiríkssonar smiðs og bónda í Breiðadal, prests Vigfússonar á Stað í Súgandafirði.   Kona Vigfúsar í Breiðadal var Þorkatla Ásgeirsdóttir, prófasts í Holti Jónssonar.

Árið eftir að Erla fæddist, fluttist Þórunn aftur vestur heim, og á Flateyri bjó hún síðan, hélt heimili með móður sinni og bróður, Guðmundi Jóni; hann andaðist sumarið 1952. Þórunn var dugnaðarkona. Um aldarfjórðungs skeið starfaði hún á sjúkraskýli hreppsins.

Sigurður, faðir Guðmundar, fæddist í Götu í Hrunamannahreppi, sonur Sigurdórs Stefánssonar, bónda þar, og konu hans, Katrínar Guðmundsdóttur.

Í föðurkyn er Sigurður af Ásgarðsætt í Grímsnesi, fólki prestfeðganna á Hrafnseyri, föður og afa Jóns forseta. Föðuramma Sigurðar, Helga Halldórsdóttir húsfreyja í Götu, var dótturdóttir Eiríks Ólafssonar, bónda á Þóroddsstöðum og Litla-Landi í Ölfusi, en eiginkona Eiríks var Helga, dóttir Jóns yngra Bjarnasonar á Vindási í Hvolhreppi forna, Halldórssonar, bónda á Víkingslæk á Rangárvöllum, ættföður Víkingslækjarættarinnar.

Guðmundur Jón var prýðilega gefinn, eins og hann átti kyn til, dáindisvel máli farinn og ritfær í besta lagi.  Hann var alla ævi öruggur bílstjóri, hafði enda ungur heillast af fyrirbrigðinu “sjálfrennireið”.  Beygðist snemma krókurinn, því að drengurinn var naumast mæltur orðinn, þegar hann horfði hugfanginn á vörubifreið Guðmundar biðreiðarstjóra Gunnarssonar út um gluggann á húsi foreldra sinna við Bárugötu á Flateyri.   Guðmundur Steinarr, sem átti heima við Grundarstíg og lágu lóðir húsanna saman, hafði nýlega keypt þennan bíl af Bjarna heitnum Einarssyni á Þingeyri. Benti nú Guðmundur litli hrifinn á bílinn og kallaði ákafur “þarna” og líkti svo eftir vélarhljóði.

   Fyrst  svo var komið heilsu þessa góða drengs, sem raun ber vitni, viljum við þakka, í Jesú nafni, að hvíldin er komin,  hvíldin heila og holla frá allri þraut.    Megi gagnkvæmar þakkir ykkar allra fyrir það, sem Guð gaf ykkur að njóta saman bera yfir skugga tregans og sveipast birtu þeirra fyrirheita, sem við eigum í helgu vori, þar sem allt er orðið nýtt, og þar sem þú, vinur, ert nú heill og sæll og blessaður í nafni Jesú Krists, sem fyrir þig er dáinn og fyrir þig er upprisinn og geymir þig og gleður til upprisudagsins mikla sigurs.

Gunnar Björnsson,

pastor emeritus.

DEILA