Ísafjörður: Samvera árgangsins 1951

Meðfylgjandi mynd var tekin af hópnum upp á Bolafjalli.

Árgangur 1951 á Ísafirði kom saman föstudaginn 25. og laugardaginn 26. ágúst s.l.

Þetta er í 8. árgangsmót hópsins en hann hefur hist á fimm ára fresti á Ísafirði síðan 1988 og var þá miðað við 20 ára gagnfræðaafmæli.

Smái Haraldsson sagði að alltaf hafi verið vel mætt á árgangsmótin hjá hópnum en nú voru slegin fyrri met slegin, því nú mættu 35 skólasystkini og 22 makar, alls 57 manns.

Í árganginum voru 60 manns, en þar af eru 13 látin.

Á föstudeginum var farið upp á Bolafjall og notið útsýnisins af hinum nýja útsýnispalli. Á bakaleiðinni var ekið um Bolungarvíkina og sagt frá helstu framkvæmdum sem þar eru í gangi og síðan ekið uppá Seljalandsdal og notið útsýnisins yfir fjörðinn fagra. Á eftir var farið í Dokkuna – brugghús og fræðst um þetta nýlega fyrirtæki og framleiðslu þess, auk þess þar var snæddur léttur kvöldverður og framleiðslan tekin út.

Á laugardaginn var ekið að Dynjanda og síðan að Hrafnseyri. Þar fékk hópurinn kaffi og vöfflur hjá Margréti Hrönn Hallmundsdóttur fornleifafræðingi hjá Náttúrustofu Vestfjarða, sem þessa helgi gegndi einnig störfum staðarhaldara og veitingamanns.

Margrét Hrönn fræddi hópinn um sögu staðarins og rannsóknir sýnar, sem fólki þóttu afar áhugaverðar. Um kvöldið var snæddur hátíðarkvöldverður á Logninu.

Vestfirskar ævintýraferðir sáu um að aka hópnum á sínum góðu bílum.

Árgangsmótin hópsins hafa öll verið ánægjuleg og vel heppnuð, en Smári Haraldsson segir þó mest um vert að styrkja vináttuna sem til var stofnað á barns- og unglingsárum fyrir allmörgum árum.

DEILA