Við viljum frið

Það myndi leysa mörg vandamál ef hægt væri að koma á friði í heiminum,

Fólk er hrakið á flótta frá stríðshrjáðum löndum svo milljónum skiptir – fjöldinn allur deyr á flóttanum og enn aðrir í flóttamannabúðum þar sem það hokrar bjargarlaust við skelfilegar aðstæður. Aðeins lítill hluti þeirra sem lenda í hrakningum vegna stríðsátaka kemst í öruggt skjól og þeim mun fara fækkandi þar sem þau lönd sem hafa verið að taka á móti flóttafólki ráða ekki við meira – það er staðreynd sem ekki verður litið framhjá.

Flóttamannastraumurinn skapar fjölmörg vandamál – eins og til dæmis húsnæðisskort og gríðalegt álag á alla innviði á þeim stöðum þar sem hann liggur um.

Þessi vandamál vinda stöðugt upp á sig – skapa glundroða sem hæglega gæti þróast út í skærur og jafnvel borgarastyrjaldir – þar sem margir ólíkir menningarhópar mætast og allir að berjast um það sama – af komast af í hnignandi heimi – þar sem misskipting lífsgæða fer ört vaxandi. – Það er nefnilega auðvaldið sem helst græðir á eymd og kröm.

Það virðist lítill vilji hjá þjóðarleiðtogum að reyna friðarumleitanir – þeir skipta sér bara í fylkingar og útvega þeim sem berjast á banaspjótum vopnin og halda uppi linnulausum áróðri fyrir þá sem þeir halda með hverju sinni – telja okkur hinum svo trú um að þeir geri þetta af einskærri góðmennsku og guðlegri réttlætiskennd.

Allri skynsemi er sópað undir teppi – allir virðast þeir sammála um að réttlætanlegt sé að stofna heimsfriðnum í hættu og hrekja milljónir manna út í óvissuna fyrir landskika eða lítinn skaga sem þeir vilja ekki að sá vondi handan víglínu nái á sitt vald.

Svo tala þessir þjóðkjörnu fulltrúar sem tekið hafa að sér að vaka yfir velferð okkar í ræðum sínum á tyllidögum um hvað heimurinn hafi minnkað – að við séum orðin svo víðsýn, umburðarlynd og kærleiksrík – kannski rétt búin að kvitta undir stuðning við stríðandi þjóðir.

Það er dapurlegt að fylgjast með þessu sjálfumglaða fólki –  sem er svo upphafið og veruleikafirrt.

Almenningur er svo hvattur til að taka þátt – kannski til að dreifa ábyrgðinni því við erum öll í þessu saman – eins og nýjasta máltækið segir – hann er hvattur til að gefa fatnað og eða láta fé af hendi rakna stríðshrjáðum til handa. Sjálfsagt kemur þetta einhverjum til góða rati þetta í réttar hendur. En þetta er bara dropi í hafið – plástur á svöðusár – lítill bómullarhnoðri í blóðbaði.

Stríð hafa aldrei leyst nein vandamál – þau eru aldrei háð í þökk þegna því þeir vita sem er að þeirra verða fórnirnar. – Það eru menn með mikilmennskubrjálæði sem heyja stríð í nafni þjóða sinna.

Hvernig ætli æskan sem nú bíður eftir arfleifð sinni láti sig dreyma um framtíðina – ætli hún láti sig dreyma um herskyldu og stríðsorður að sér genginni ?

Mun hún kannski fremur vilja eiga í uppbyggilegum samræðum heldur en að viðhalda fornaldarhefðum eins og eyðandi og meiðandi stríðsbrölti ?

Ástandið í heiminum er orðið ískyggilegt – almenningur getur ekki lengur setið hjá og prjónað vettlinga fyrir fórnarlömb stríðsátaka til að friða samviskuna.

Þeir sem gera sér grein fyrir ógninni sem við stöndum frammi fyrir verða að taka höndum saman og grípa til aðgerða til að mótmæla stríðsrekstri og þeim hörmungum sem hann leiðir yfir saklausa borgara.

Við gætum til dæmis hætt að flokka sorp – af hverju að vera að hugsa um umhverfisvernd þegar þjóðarleiðtogar nánast standa yfir okkur með „sveðjuna“ ?

Af hverju ættum við að tína upp „karmellubréf og kóktappa“ á meðan þeir láta sprengjum rigna ?

Eigum við að hafa slæma samvisku vegna loftlagsbreytinga á meðan enn eru framleiddar kjarnorkusprengjur og gerðar tilraunir með þær ?

Eigum við að taka að okkur að axla alla ábyrgð á afleiðingum loftlagsbreytinga nú þegar heimsbyggðin rambar á barmi heimstyrjaldar ?

Gjöreyðingarstyrjaldar sem þjóðarleiðtogar kynda undir með hótunum og ögrunum af ýmsum toga og safna liði með pomp og prakt – svo greinilega verið að egna en ekki að bjóða til friðarviðræðna.

Við getum hætt að flokka sorp í mótmælaskyni hvar sem er í heiminum þar sem flokkað er.

Það er varla hægt að hugsa sér „spakari“ mótmæli.

Við viljum frið og þurfum að láta það berast !

Mögulegur kostnaður af slíkum mótmælum getur varla verið til umræðu á meðan hægt er að ausa fé í stríðsrekstur.

Það má alltaf réttlæta friðsöm mótmæli sem kalla eftir friði í heiminum – en stríð með tilheyrandi blóðsúthellingum og eyðileggingarmætti er ekki undir neinum kringumstæðum hægt að réttlæta.

Endurvinnsla er orðin að stóriðnaði í heiminum – fyrir þann iðnað flokkum við sorpið frítt og borgum undir það flutning í gegnum opinber gjöld.

Og hverjir skyldu það svo vera sem græða á þessu ?

Fjárfestar sem gera það af „greiðasemi“ að hirða sorpið frá okkur – framleiða svo úr ókeypis hráefni nytjavöru og græða feitt á því – eða hvað ?

Forgangsmálið er að bægja stríðsógninni frá !

Við vijum ekki kjarnorkustríð – er það ?

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

DEILA