Norðurtangi: framkvæmdaleyfi fyrir fyrirstöðugarði

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarráð að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir fyrirstöðugarði við Norðurtangann. Framkvæmdin snýr að flutningi grjóts úr námu að garði og röðun í garð. Einnig skal taka upp og endurnýta grjót úr núverandi grjótvörn. Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að grunnt sé við Norðurtangann, líklega minna en tveggja metra dýpi og að garðurinn verði 80 metra langur.

Það er verktakafyrirtækið Tígur ehf í Súðavík sem vinnur verkið. Bæjarstjórnin hefur þegar samþykkt 30 m.kr. viðauka við fjárhagsáætlun ársins til þess að standa straum af kostnaði við garðinn.

Skipulags- og mannvirkjanefndin bendir á að framkvæmdasvæðið er í þéttri byggð sem og allar aðkomuleiðir. Því þurfi sérstaklega að gæta að loftgæðum og mögulegri rykmyndun á framkvæmdatíma. Eins er lögð áhersla á takmörkun umferðarhraða og frágangs farms.

Gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið fyrir veturinn.

DEILA