Nemendur vinnuskóla Ísafjarðarbæjar fengu kennslu í Sjávarútvegsskólanum

Nemendur vinnuskóla Ísafjarðarbæjar sem voru að klára 8. bekk í grunnskóla fengu kennslu í Sjávarútvegsskólanum í síðustu viku.

Sjávarútvegsskólinn er samvinnuverkefni Háskólans á Akureyri, sveitarfélaga og sjávarútvegsfyrirtækja og er markmið hans að auka áhuga og efla þekkingu nemenda á sjávarútvegi.

Stundatafla skólans samanstendur af fyrirlestrum og heimsóknum í fyrirtæki og fræddust nemendur meðal annars um sögu fiskveiða, nytjategundir, vinnslu og vísindi í íslenskum sjávarútvegi. Þá var meðal annars farið í heimsókn í Hraðfrystihúsið Gunnvöru og Kerecis.

Þetta er í fjórða sinn sem vinnuskólinn í Ísafjarðarbæ tekur þátt í Sjávarútvegsskólanum en á Vestfjörðum er honum stýrt af Kötlu Snorradóttur.

DEILA