Lengjudeildin: Vestri gerði jafntefli á Akranesi

Frá leik Vestra gegn ÍA síðastliðið sumar á Akranesi. Bæði liðin unnu sér sæti í Bestu deildinni. Benedikt Warén skorar mark Vestra í leiknum.

Karlalið Vestra lék í gær við ÍA á Akranesi í Lengjudeildinni. Liðið átti góðan leik og Samúel Samúelsson,formaður meistarflokksráðs sagði að Vestri hefði pakkað Skagamönnum saman á öllum sviðum og hefði verðskuldað sigur. Benedikt V. Warén kom Vestra yfir á 65. mínútu leiksins. Skagamenn jöfnuðu skömmu fyrir leikslok og taldi Samúel markið hafa verið ólöglegt. Í uppbótartíma fékk Ibrahim Balde algert dauðafæri fyrir Vestra en skaut framhjá.

Vestri er nú í 9. sæti deildarinnar með 13 stig og hefur fjarlægst fallsætin. Er liðið fimm stigum fyrir ofan fallsæti og hefur þokast nær efri hluta deildarinnar og er aðeins 2 stigum frá 5. sæti deildarinnar , sem gefur þátttöku í umspili um sæti í Bestu deildinni. Fyrirkomulagið er þannig að efsta liðið í Lengjudeildinni vinnur sér sæti í Bestu deildinni og liðin í 2. – 5. sæti spila um eitt sæti og fer sigurvegarinn einnig upp.

Vestri á frestaðan leik á heimavelli gegn Selfossi og ef hann vinnst færist liðið upp í 5. sætið svo það verður greinilega keppikeflið seinni hluta mótsins að ná í umspilssæti.

Afturelding í Mosfellsbænum er langefst með 32 stig, næst kemur Fjölnir með 23 stig og ÍA með 21 stig.

Næsti leikur Vestra verður á Olís vellinum á Ísafirði gegn Þór frá Akureyri laugardaginn 22. júlí kl 14.

DEILA