Gera á úttekt á starfsemi tónlistarskólanna

Mennta- og barnamálaráðuneyti auglýsir eftir aðilum til að taka að sér verkefni á sviði úttektar á starfsemi tónlistarskóla á haustmisseri 2023.

Verkefnið skal innt af hendi á tímabilinu október til desember. Um er að ræða stofnanaúttektir og almenna gagnasöfnun. Í verkefninu felst að utanaðkomandi aðili leggur mat á starfsemi tónlistarskóla með hliðsjón af gildandi lögum og aðalnámskrá, m.a. stjórnun, innra starf, aðstöðu, samskipti innan skóla og við aðila utan skólans, þjónustu við nemendur og starfsfólk, þróunarstarf og umbætur í skólastarfi. Verður það m.a. gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra. Úttektirnar eru gerðar í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla. 

Gert er ráð fyrir að verkefnið verði í höndum úttektarteymis. Mikilvægt er að a.m.k. einn einstaklingur í teyminu hafi nokkurra ára reynslu af kennslu við tónlistarskóla en má þó ekki vera starfandi í tónlistarskóla á skólaárinu 2023-2024. Saman skal teymið hafa menntun og reynslu á sviði úttekta og tónlistarkennslu. Einstaklingar, teymi, fyrirtæki og stofnanir geta sótt um. Ekki verða ráðnir einstaklingar sem starfa í tónlistarskólum eða á vegum skólaþjónustu sveitarfélaga.

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsferil skulu berast ráðuneytinu fyrir 21. ágúst 2023.

DEILA