Patreksfjörður: nýtt hús fyrirhugað á Aðalstræti 19

Teikning af fyrirhuguðu húsi á Aðalstræti 19, Patreksfirði.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að heimila byggingu á tvílyftu húsi við Aðalstræti 19 á Patreksfirði. Þrjár íbúðir verða í húsinu. Byggingarreiturinn verður stækkaður um 12 fermetra og verður 122 fermetrar. Skilmálum um þakhalla verður breytt. Fram kom athugasemd við grenndarkynningu og segir þar að húsið verði of stórt miðað við byggingarreit og að ekki séu 6 bílastæði sem þurfi að vera.

Að mati skipulags- og umhverfisráðs Vetsurbyggðar er hæð hússins í samræmi við hæð annarra húsa í húsaröðinni , stækkun byggingarreitsins sé óveruleg og telur nefndin að fjögur bílastæði muni duga. Segir nefndin að meðfram Aðalstræti séu 14 bílastæði sem hægt er að samnýta með öðrum húsum í húsaröðinni en einnig sé mögulegt að koma fyrir 4-6 bílastæðum innan lóðar án vandkvæða.

Bæjarstjórnin samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisráðs þess efnis að að tillagan fái málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

DEILA