Landhelgisgæslan: þyrlan kölluð út þrisvar

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur á undanförnum sólarhring annast þrjú útköll, þar af tvö út á sjó segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Á þriðja tímanum í nótt hafði skipstjóri togara samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna bráðra veikinda um borð. Togarinn var þá staddur um 14 sjómílur út af Búðarhorni á Vestfjörðum og var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kölluð út. Hífingar gengu vel og skipverjinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.

Í gær var þyrlan tvívegis kölluð út. Í fyrra skiptið vegna göngukonu sem hrasaði og slasaðist á fæti á Breiðamerkurjökli. Konan var sótt og flutt á Landspítalann. Síðdegis í gær óskaði skipstjóri togara eftir aðstoð þyrlusveitar vegna slyss sem varð um borð en skipið var þá statt á miðjum Faxaflóa. Áhöfnin á TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á mesta forgangi. Skipverjinn var hífður um borð í þyrluna og fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.

DEILA