Jarðgangaáætlun: sunnanverðir Vestfirðir bíða í 25 ár

Áhersluverkefni Fjórðungssambands Vestfirðinga í jarðgangagerð eru öll að finna í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. En þau eru ekki meðal fjögurra jarðganga sem tekin verða fyrst og tveimur framkvæmdum á norðanverðum Vestfjörðum er raðað á undan tveimur jarðgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Fjórðungssamband Vestfirðinga gekk frá sinni forgangsröðun jarðgangaverkefni á fundi á Ísafirði haustið 2021. Í Jarðgangaáætlun Vestfjarða eru þessi verkefni:
*Jarðgöng milli í Súðavíkur og Ísafjarðar (Álftafjarðargöng).
*Jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán í einni framkvæmd.
*Hafin vinna að uppfærslu jarðganga undir Breiðadalsheiði og Botnsheiði, með breikkun leggsins undir Breiðadalsheiði.

Þarna eru þrenn ný jarðgöng og breikkun á Breiðadalslegg Vestfjarðaganga. Hálfdán og Miklidalur eru á sunnanverðum Vestfjörðum og Álftafjarðargöng og breikkun Breiðadalsleggs eru á norðanverðum Vestfjörðum. Í ályktun Fjórðungssambandsins er verkefnunum ekki forgangsraðað en eflaust má lesa eitthvað um röðina út frá því hvernig þau eru talin upp.

Í samgönguáætluninni sem kynnt var á þriðjudaginn eru öll þessi verkefni en röðin vekur athygli.

Álftafjarðargöngin koma fyrst og eru nr 5 í jarðgangaröðinni sem Vegagerðin er sögð leggja til. Breikkun Breiðadalsleggsins kemur næst og er nr 6. Þarna eru komnar báðir kostirnir á norðanverðum Vestfjörðum. Hálfdán og Miklidalur eru talin upp sem eitt verkefni þótt tvenn göng séu og það er í samræmi við framsetningu Fjórðungssambandsins. Hins vegar eru þau nr 8 í jarðgangaröðinni og lenda á eftir Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngum, sem kosta um 50 milljarða króna. Það seinkar mjög því að röðin komi að þeim og þýðir að a.m.k. 3 – 5 ára seinkun, trúlega meira.

Sé reynt að tímasetja Vestfjarðaverkefnin út frá því sem fram kemur í samgönguáætluninni þá er miðað við að verkefnin 10 taki 30 ár. Fjögur verkefni eru á undan fyrstu göngunum á Vestfjörðum, þar með talin hin dýru Fjarðarheiðargöng. Það mun taka að öllum líkindum 10-12 ár að ljúka þeim áður en kemur að Álftafjarðargöngunum. Þá á eftir að gera þau, breikka Vestfjarðagöngin og grafa Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngin, sem eru jafndýr og Fjarðarheiðargöngin, áður en kemur að sunnanverðum Vestfjörðum. Það gæti tekið svipaðan tíma eða 10 – 12 ár þannig að ekki er óvarlegt að 25 ár líði áður en kemur að Hálfdán og Mikladal. Þessi tímaáætlun miðast við að miklu meira fé verði um langt árabil sett í jarðgangagerð en hingað til hefur verið gert.

Því verður ekki neitað að það stingur í augu að Siglufjarðarskarðsgöng eru sett nr 2 í forgangsröð Vegagerðarinnar. Það er merkileg niðurstaða eftir að Héðinsfjarðargöngin tvö voru gerð til Siglufjarðar til þess að tryggja öruggar samgöngur. Er það virkilega svo að eftir þá miklu framkvæmd að Siglufjörður sé verst staddur allra byggðarlaga á Íslandi, utan Seyðisfjarðar, varðandi öruggar samgöngur og miklu verr en Súðavík, Bíldudalur eða Tálknafjörður?

Langminnugir muna það Siglfirðingar sögðu sig úr samstarfi við Norðurland vestra og fluttu sig til Norðurlands eystra og jafnframt milli kjördæma til þess að vinna stuðning við að sækja sína þjónustu til Akureyrar og Eyjafjarðar – og fengu sínu framgengt. Fyrir vikið var öðrum jarðgöngin frestað.

Hvað ætla þeir nú að sækja vestur á bóginn og er það svo aðkallandi að Álftafjarðargöng þurfa að bíða í áratug og Hálfdán og Miklidalur í aldarfjórðung?

-k

DEILA