Ísafjarðarbær: laun sviðsstjóra vísitölutengd

Laun sviðsstjóra Ísafjarðarbæjar er föst tala sem verðbætist 1. janúar ár hvert miðað við hækkun launavísitölu. Í svörum Ísafjarðarbæjar kemur fram að launin taki ekki hækkunum samkvæmt almennum kjarasamningum og að engin yfirvinna er greidd né aðrar aukagreiðslur líkt og í almennum kjarasamningum, s.s. desemberuppbót.

Launin eru 1.632.798 kr. í ár og munu að óbreyttu hækka um næstu áramót sem nemur hækkun launavísitölu frá 1. janúar 2023 til sama tíma 2024.

Laun bæjarstjóra hækka einnig um áramót til samræmis við breytingar á launavísitölu frá 1. janúar næst á undan. Þau voru 1.095.021 kr. á mánuði í föst laun og 682.798 kr í fasta yfirvinnu í júní 2022 eða samtals 1.777.329 kr. á mánuði. Um áramótin hækkuðu launin í 1.919.778 kr. vegna hækkunar launavísitölu.

Frá áramótum hefur launavísitalan þegar hækkað um 3,54% sem mun hækka launin upp í 1.978.738 kr. á mánuði fyrir bæjarstjóra og 1.690.599 kr. á mánuði fyrir sviðsstjóra.

Til viðbótar fær bæjarstjóri greiddar mánaðarlega 500 km. í bifreiðastyrk samkvæmt ákvörðun um akstursgjald
ríkisstarfsmanna, sem eru nú 141 kr/km.

DEILA