Hvalveiðar stöðvaðar daginn fyrir upphaf vertíðar

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra flytur ávarp á ráðstefnu fiskeldisfyrirtækja.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tekið ákvörðun um að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum fram til 31. ágúst nk. samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu. Hún tilkynnti um ákvörðun sína á ríkisstjórnarfundi í morgun.

“Ég hef tekið ákvörðun um að stöðva hvalveiðar tímabundið í ljósi afdráttarlauss álits fagráðs um velferð dýra,” sagði matvælaráðherra. „Skilyrði laga um velferð dýra eru ófrávíkjanleg í mínum huga, geti stjórnvöld og leyfishafar ekki tryggt kröfur um velferð á þessi starfsemi sér ekki framtíð.“ segir ráðherrann í tilkynningunni.

Álit fagráðsins barst matvælaráðuneytinu 19. júní og niðurstaða þess er að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki lögum um velferð dýra.

Í fagráðinu eiga sæti.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, formaður, skipuð án tilnefningar
Hilmar Vilberg Gylfason, yfirlögfræðingur BÍ, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
Katrín Andrésdóttir, dýralæknir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Ísland
Anna Berg Samúelsdóttir, bú- og landfræðingur, tilnefnd af Dýraverndarsambandi Íslands
Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og kennari í siðfræði, tilnefndur af Siðfræðistofnun HÍ

Í bókun fulltrúa Bænadasamtakanna segir að það álitamál sem lagt var fyrir fagráð sneri einvörðungu að því hvort hvalveiðar samrýmist lögum um velferð dýra, en fulltrúi Bændasamtakanna setur þann áskilnað við málið að um
hvalveiðar gildi sérlög og því lögfræðilegt álitamál hvort að gildissvið laga um velferð dýra hafi verið ætlað að ná yfir hvali.

Fagráðið fór ítarlega yfir efni eftirlitsskýrslu MAST frá maí, Velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022, og kallaði sérfræðinga á sinn fund til að fá fram þeirra sjónarmið og svara spurningum. En niðurstaða skýrslunnar er að aflífun dýranna hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra. Sérfræðingarnir sem komu fyrir fagráðið voru Þóra Jónasdóttir, dýralæknir villtra dýra hjá MAST og höfundur eftirlitsskýrslunnar, Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur og lektor við Háskóla Íslands og Egil Ole Øen, dýralæknir og sérfræðingur um hvalveiðar.

Ráðuneytið mun kanna mögulegar úrbætur og lagaleg skilyrði þess að setja frekari takmarkanir á veiðarnar á grundvelli laga um velferð dýra og laga um hvalveiðar á komandi mánuðum og leita álits sérfræðinga og leyfishafa í því skyni segir í tilkynningunni.

Veiðarnar áttu að hefjast á morgun, 21. júní.

DEILA