Gunnar verður Blábankastjóri

Stjórn Blábankans hefur ráðið Gunnar Ólafsson sem næsta bankastjóra Blábankans á Þingeyri.

Gunnar hefur mikla reynslu af nýsköpun og samfélagsmálum á Vestfjörðum.

Undanfarin ár hefur hann rekið Djúpið, samfélags- og nýsköpunarmiðstöð í Bolungarvík, auk þess að hafa komið á laggirnar fjölmörgum sprotaverkefnum og tekið virkan þátt í þróun nýsköpunar á landsbyggðinni. Gunnar býr ásamt fjölskyldu sinni í Bolungarvík.

Gunnar tekur við af Birtu Bjargardóttur sem verið hefur Blábankastjóri frá 2021 en hverfur til annarra starfa 1. september.

Blábankinn á Þingeyri er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2017 þegar Landsbankinn hætti starfsemi á Þingeyri og bauð húsnæðið til starfseminnar. Stofnaðilar voru einkaaðilar, Ísafjarðarbær og sveitarstjórnarráðuneytið. Fjármögnun Blábankans út árið 2024 var tryggð með samningum við Arctic Fish, Ísafjarðarbæ og Innviðaráðuneytið.  

Hlutverk Blábankans er að bjóða umgjörð fyrir sköpun á Vestfjörðum, með fjölbreytt atvinnulíf, sjálfbærni og lífsgæði að leiðarljósi. 

DEILA