Alþingi: þingmenn vilja göng milli Siglufjarðar og Fljóta

Átján alþingismenn fluttu á yfirstandandi Alþingi tillögu til þingsályktunar um veggöng milli Siglufjarðar og Fljóta. Eru það allir 10 þingmenn Norðausturkjördæmis, sex af átta þingmönnum Norðvesturkjördæmis og 2 þingmenn Reykjavíkur. Af þingmönnum Norðvesturkjördæmis eru það aðeins Þórdís Gylfadóttir, utanríkisráðherra og Halla Signý Kristjánsdóttir sem ekki standa að tillögunni.

Vilja flutningsmennirnir fela Vegagerðinni að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna gerðar vegganga fyrir þjóðveg milli Siglufjarðar og Fljóta, hanna slíkt mannvirki og leggja mat á kostnað við gerð þess. Ráðherra leggi skýrslu með niðurstöðum rannsókna og kostnaðarmati fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.

Samhljóða tillaga hefur tvisvar áður verið lögð fram en hefur ekki náð fram að ganga.

Í rökstuðningi fyrir málinu er lögð áhersla á að jarðgöngin myndu stytta veginn milli Siglufjarðar og Fljóta um 16 km eða um helming og að viðvarandi óvissustig sé á Siglufjarðarvegi vegna jarðskriðs og hættu á grjóthruni allt árið um kring.

Þá segir í greinargerðinni um veginn frá Siglufirði í vesturátt um Strákagöng og Almenninga að Fljótum í Skagafirði:

„Fari svo að vegurinn um Almenninga lokist vegna jarðfalls og verði eftir það tekinn úr umferð af öryggisástæðum verða bæði Siglufjörður og Ólafsfjörður, og reyndar Dalvík einnig, endastöðvar á ný með öllum þeim ókostum sem því fylgja. Hin jákvæða byggðaþróun sem varð með tilkomu Héðinsfjarðarganga, þar sem þessir staðir urðu ekki lengur endastöðvar, myndi þá falla niður með tilheyrandi afturhvarfi og erfiðleikum fyrir allt atvinnulíf og mannlíf á þessum stöðum.“

Flutningsmenn benda sérstaklega á Siglufjarðarskarðsgöng til úrbóta sem „myndu styrkja og stórefla byggð í Fljótum en þar hefur orðið mikil uppbygging að Deplum undanfarin ár þar sem erlendir aðilar hafa byggt stórt og myndarlegt lúxushótel. Enn fremur má nefna uppbyggingu ferðaþjónustufyrirtækis að Sólgörðum. Með jarðgöngunum yrðu um 9 km frá miðbæ Siglufjarðar að Ketilási í Fljótum í stað 25 km eins og nú. Svæðin tengdust því enn frekar og betur sem eitt atvinnusvæði.“

Í nýbirtri tillögu Innviðaráðherra að samgönguáætlun er að finna jarðgangaáætlun þar sem Siglufjarðarskarðsgöngum er raðað í 2.sæti í framkvæmdaröð. Í greinargerð Vegagerðarinnar til stuðnings röðuninni er lögð áhersla á slæmt ástand Siglufjarðarvegar og tíðar lokanir svo og segir að göngin myndu hafa jákvæð áhrif á vetrarferðaþjónustu og vera mikilvæg fyrir láglendis hringtengingu á Tröllaskaga.

Þrátt fyrir umrædd jarðgöng segir Vegagerðin að áfram yrði að vera vegur frá Siglufirði um Strákagöng að bæjum norðan Almenninga.

Þingsályktunartillagan varð ekki útrædd og náði því ekki fram að ganga.

DEILA