Spurðu um málfræði – gefum íslenskunni séns

Átakið Gefum íslensku séns er við það að fara almennilega af stað. Nú þegar hefur verið haldinn kynningarfundur á átakinu sem átti sér stað í Háskólasetri Vestfjarða 17. maí síðastliðinn þar sem kynning á hagnýtu námi í íslensku sem annað mál við HÍ átti sér einnig stað. Nú stendur nefnilega fólki á Vestfjörðum til boða að læra íslensku sem annað mál við HÍ gegnum netið án þess að þurfa að fara suður til að sinna verkefnavikum og taka próf. Allt slíkt, próf og verkefni, verður hægt að sinna í Háskólasetri Vestfjarða sem jafnframt verður, ásamt Fræðslumiðstöð Vestfjarða, miðstöð fyrir íslenskunema. Auk þess verða sunnanverðir Vestfirðir einnig þjónustaðir af téðum stofnunum.

Vonir standa og til að í framtíðinni verði hægt að bjóða upp á staðnám í íslensku á Ísafirði, allavega að einhverju leyti.

Í vikunni verður svo dagskrá átaksins Gefum íslensku séns, fyrir það sem eftir lifir maí og fyrir júní, kynnt.

Næst á dagskrá er svo liðurinn Spurðu um málfræði.  Liðurinn er bæði hugsaður fyrir þá sem læra íslensku og þá sem gætu þurft að útskýra málfræði en vita ekki hvernig. Gangi viðburðurinn vel fyrir sig er næsta víst að framhald verði þar á.

Staðsetning: Háskólasetur Vestfjarða. Þriðjudagur 30. maí klukkan 17:30.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

DEILA