OV: kolefnissporið 2022 jókst um 570% m.v. 2019

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður O.V.

Fram kemur hjá Elíasi Jónatanssyni, Orkubússtjóra í ársskýrslu Orkubús Vestfjarða að í fyrra hafi þurft að brenna 2,1 milljón lítra af olíu í olíukötlum sem notaðir eru sem varaafl fyrir rafkyntar hitaveitur þar sem Landsvirkjun skerti afhendingu á raforku. Varaaflsframleiðsla á heitu vatni með olíukötlum jókst því gríðarlega á milli ára, hún tífaldaðist úr 1,8 GWst í 18 GWst.

Skerðing á afhendingu skerðanlegrar orku til rafkyntra hitaveitna hafði afgerandi áhrif á kolefnisspor fyrirtækisins á síðasta ári. Þvert á markmið fyrirtækisins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda var aukningin 570 % samanborið við árið 2019.

Elías segir að með því að byggja upp virkjanir á Vestfjörðum megi auka afhendingaröryggi raforku til muna en um leið væri hægt að draga úr kolefnisspori vegna raforkuframleiðslu um 90% og er stefnt að því.

komið að virkjunarframkvæmdum

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður O.V. leggur áherslu á virkjunarframkvæmdir í ávarpi sínu í ársskýrslunni og segir að tveir virkjunarkostir, Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði og Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði séu vænlegir og miklu skipti að þeir verði að veruleika. Komið sé að aðgerðum:

„Sá tími er kominn, og reyndar löngu kominn, að stjórnmálamenn geta ekki lengur vikið sér undan því verkefni að leysa vanda Vestfirðinga í þessum málum. Nú liggur fyrir með skýrum hætti hvaða valkostir eru til staðar og ekki verður unað við að bent verði með óljósum hætti á „eitthvað annað“ en þá kosti sem eru raunhæfir og hægt að ráðast í innan eðlilegra tímamarka.“

Ársfundur OV var haldinn í gær á Ísafirði og skipað í stjórn fyrirtækisins. Í stjórn Orkubús Vestfjarða eru Illugi Gunnarsson, formaður, Valgerður Árnadóttir, varaformaður og aðrir stjórnarmenn eru Viktoría Rán Ólafsdóttir, Unnar Hermannsson og Gísli Jón Kristjánsson.

DEILA