ÓKEYPIS ÍSLENSKUNÁMSKEIÐ FYRIR FÓLK Í FRAMLÍNUSTÖRFUM

Í fyrra stóð átakið Íslenskuvænt samfélag að ókeypis íslenskunámskeiði fyrir fólk í framlínustörfum í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Í ár verður einnig staðið að ókeypis íslenskenskunámskeiði undir merkjum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Fer námskeiðið fram 23. og 25. maí í Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Suðurgötu 12.

Námskeiðinu er, í sem fæstum orðum, ætlað að vera fyrstu skref þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku og er hugsað þannig að atvinnurekendur, sem hafa erlent starfsfólk sem kann lítið fyrir sér í íslensku, geti bent því á að sækja námskeiðið.

Farið verður í íslensku sem gagnast í starfi og þá með það augnamið að viðkomandi læri nógu mikið til að byggja á og nota við einföld þjónustustörf. Með því skapast grunnur fyrir atvinnurekendur til að byggja á og hjálpa starfsfólkinu áfram á þessari braut, að veita þjónustu á íslensku. Einnig er velkomið að bjóða íslenskum vinum með til að æfa sig enda snýst málið líka um að miða íslenskuna við færni fólks almennt séð. Slíkt þarfnast stundum æfingar og verða aðstæður og æfðar í kúrsinum.

Það er ekkert launungarmál að nokkur styr stendur um þá staðreynd að oft kemur fyrir að ekki sé boðið upp á þjónustu á íslensku á veitingastöðum, kaffihúsum, hótelum, í verslunum og hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Er hér því kjörið tækifæri fyrir alla metnaðarfulla atvinnurekendur í áðurnefndum geirum að feta sig áfram þá átt að bjóða ávallt upp á íslensku fyrir viðskiptavini sína því ekki má gleyma því að ábyrgðin er atvinnurekenda ekki starfsfólksins.

Sé auk þess áhugi á samstarfi við átakið er það auðsótt mál og ánægjulegt. Gangi námskeiðið vel verður næsta víst boðið upp á fleiri. Auk þess má vel skoða að bjóða upp á klæðskerasniðin námskeið.

Aukum veg íslenskunar, hjálpum fólki að stíga fyrstu skrefin og sínum metnað í þessa veru. Gefum íslensku séns er boðið og búið til að hjálpa.

Gefum íslensku séns

islenska(hja)uw.is

Gefum íslensku séns á Facebook

Sími 8920799

DEILA