Noregur: laxaskatturinn lögfestur

Norska þingið samþykkti fyrr í dag eftir átta mánaða umfjöllun nýjan skatt á laxeldi. Um er að ræða svonefndan grunnskatt, sem verður 25% af framlegð , þ.e. tekjum að frádregnum útgjöldum. Þá verður til viðbótar fastur frádráttur 70 m. norskra króna til að mæta fjárfestingu. Stærri fyrirtæki munu í raun greiða skattinn sem mun bætast við tekjuskatt af hagnaði.

Ríkisstjórnin lagði til í upphafi að skatturinn yrði 40% en lækkaði tillöguna í 35% fyrir skömmu og eftir viðræður við aðra flokka á Stórþinginu náðist samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna Verkamannaflokksins og Miðflokksins og Venstre, sem er í stjórnarandstöðu um að lækka skattinn í 25%. Þessir þrír flokkar hafa ekki hreinan meirihluta þar sem vantar einn þingmann upp á og fengu þeir þingmann Pasientfokus í Finnmörku til liðs við samkomulagið og var þá meirihlutinn á þinginu í höfn.

Mikil andstaða var við samkomulagið og skattaáformin yfirleitt hjá flestum stjórnarandstöðuflokkum og neituðu þeir að semja við stjórnarflokkana um að hliðra til í atkvæðagreiðslu vegna fjarverandi þingmanna. Þá tilkynnti vinstri flokkurinn Rödt, að hann myndi greiða atkvæði með samkomulaginu til þess að skatturinn yrði lögfestur. Það væri mikilvægt þótt þeir vildu hærri skattprósentu. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var að 93 þingmenn greiddu atkvæði með skattinum og 76 á móti, en 85 þarf fyrir meirihluta.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar tók einnig þeim breytingum að stærri hlutur skattteknanna renna til sveitarfélaga og héraða þar sem eldið er en áður var áformað.

Upphaflega var skatturinn talinn munu skila 3,6-3,8 milljörðum norskra króna en fljótlega kom í ljós að 40% skattprósenra myndi skila a.m.k. fjórfalt hærri tekjum. Nú er gefið upp að 25% skatturinn muni skila um 10 milljörðum króna norskra.

Eftir sem áður er mikil andstaða við skattheimtuna bæði í þinginu og meðal sveitarstjórnar- og fylkismanna. Er skatturinn talinn of hár og muni draga verulega úr fjárfestingu og þróun í greininni og það muni bitna á landsbyggðinni. Má því búast við að grunnskatturinn verði áfram bitbein í norskum stjórnmálum.

DEILA