Marion Gisela fékk starfsmerki UMFÍ

Birna og Marion

„Ég var ekkert smá ánægð, þetta kom mér svo á óvart,“ segir Marion Gisela Worthmann, fyrrverandi formaður Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF). Hún heiðruð með starfsmerki UMFÍ á ársþingi sambandsins sem fram fór á Tálknafirði.

Marion hefur verið formaður HHF síðustu misserin og sinnt því með sóma og hefur auk þess tekið virkan þátt í íþróttalífinu á Tálknafirði og átt stóran þátt í því að halda starfinu gangandi. Samhliða því að hafa verið formaður HHF hefur Marion verið formaður Ungmennafélags Tálknafjarðar.

Marion hefur tekið að sér ótal verkefni í tengslum við íþróttalífið í Tálknafirði og með dugnaði og elju leyst þau óaðfinnanlega.

Þótt Marion hafi vel getað hugsað sér að vera áfram formaður HHF þá hefur hún í nægu öðru að snúast og ákvað því að gefa ekki kost á sér áfram. Við formennsku tók Birna Friðbjört Hannesdóttir, frjálsíþróttaþjálfari og skólastjóri Tálknafjarðarskóla. Þær Birna og Marion eru hér saman á myndinni að ofan.

„Ég er tónlistarkennari, íþróttakennari, þjálfa á kvöldin og rek veitingastað auk þess að vera organisti í fimm kirkjum.

Síðan er ég að reyna að koma sundi aftur í gang hér í Tálknafirði. Það er soldið mikið að gera,“ segir Marion kát með starfsmerkið. Hún er samt ekki alveg hætt því við smávægilegar breytingar á stjórn HHF fór Marion í varastjórn.

DEILA