Lengjudeildin: Vestri gerði 2:2 jafntefli á Seltjarnarnesi

Fyrra mark Vestra í aðsigi. Mikkel Jakobsen að skora. Skjáskot af youtube.com.

Karlalið Vestra í Lengjudeildinni í knattspyrnu lék sinn þriðja leik á sumrinu í gær. Leikið var á Seltjarnarnesi og sterkt lið Gróttu var sótt heim. Liðin skildu jöfn eftir góðan leik þar sem hvort lið gerði tvö mörk. Vestramenn voru fyrri til að skora og tóku forystuna á 26. mínútu fyrri hálfleiks með marki Mikkel Jakobsen. Tíu mínútum síðar jafnaði Grótta með sjálfsmarki leikmanns Vestra. Staðan í leikhléi var jöfn 1:1. Í síðari hálfleik skoraði Vladimir Tufegdzic á 63. mínútu. Grótta jafnaði með marki skömmu fyrir leikslok.

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnuráðs meistaraflokks var ánægður með leik sinna manna og sagði að Vestri hefði verið betra liðið og góður stígandi væri í leik liðsins. Hann var hins vegar óánægður með að hafa ekki unnið leikinn, sagði að Vestri hefði ekki nýtt færin sem skyldi sem liðið skapaði með góðum leik. Samúel sagðist vera bjartsýnn á gott gengi liðsins í Lengjudeildinni í sumar.

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra var ósáttur við jafntefli og sagði í viðtali við fotbolti.net að dómarinn hafi dæmt af Vestra löglega skorað mark og að Vestri hafi auk þess átt að fá vítaspyrnu í leiknum. Vestri hafi klárlega verið betra liðið.

Vestri hefur gert tvö jafntefli og tapað einum leik eftir þrjár umferðir. Næsti leikur verður á föstudaginn á Torfnesi gegn Grindavík og þá kemur vonandi fyrsti sigurleikur sumarins.

DEILA