Klettháls: rifist við Neyðarlínuna

Jóhannes Haraldsson, stýrimaður frá Kletti í Kollafirði segir það alvarlegt mál að þurfa að rífast við Neyðarlínuna um viðbrögð við bílslysi á Kletthálsi um helgina. Jóhannes og kona hans Helga Jensen, hjúkrunarfræðingur voru á Kletti þegar erlendir ferðamenn komu til þeirra og létu vita af bílslysi á hálsinum. Þau fóru þegar af stað upp á hálsinn og Jóhannes hringdi á leiðinni í Landhelgisgæsluna og lét vita. Landshelgisgæslan svaraði því til að útkallsbeiðni yrði að koma frá Neyðarlínunni. Þegar á slysstað kom varð þeim strax ljóst að kalla þyrfti út þyrlu til aðstoðar. Bíllinn var mjög illa farinn og einn slasaður í bílnum.

Jóhannes segir að læknir frá Patreksfirði sé um hálfan annan tíma á slysstað og svör Neyðarlínuna um að læknir þyrfti fyrst að koma á vettvang og meta aðstæður séu alls ekki í lagi. Hann segir að almenna reglan sé að velja fljótvirkustu leiðina til hjálpar og þetta geti ekki verið réttu viðbrögðin. Helga talaði við Neyðarlínuna og lét skýrt koma fram að hún teldi þörf á þyrlunni en ekki var farið eftir því mati. „Þetta var bara rifrildi í símanum“ sagði Jóhannes.

Þá kom að slysstað kona, sem var að koma frá náms- og kynnisferð sérnámslækna á Ísafirði. Hún spurði strax hvort búið væri að kalla á þyrluna og hringdi á Neyðarlínuna og að sögn Jóhannesar sagði hún við Neyðarlínuna að hún væri læknir. Jóhannes sagði það áhugavert að fá svör við því hvort sú tilviljun að læknir kom á vettvang hafi ráðið því að þyrlan var loks kölluð út.

Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum var þyrlan kölluð út kl 10:45 að hennar beiðni. Þyrlan lenti á vettvangi kl 11:48.

DEILA