Jafnrétti, jöfnuður, velferð

Fyrir 100 árum, þann  1. maí 1923, gengu Íslendingar í kröfugöngu í fyrsta sinn. Kröfurnar sem þau gerðu voru um

–          styttri vinnutíma

–          betra húsnæði

engan tekjuskatt á lágmarkslaun

Hljómar þetta kunnuglega?

Verkalýðshreyfingin á Ísafirði á sér einkar glæsilega sögu sem hófst 1921, 2 árum fyrir fyrstu 1. maí gönguna, með uppbyggingu ísfirsks velferðarkerfis: byggingu sjúkrahúss, elliheimilis og baðhúss til afnota fyrir almenning. Þá var stórauknu fé veitt til skólamála auk þess sem mjólkur- og lýsisgjöfum var komið á til til fátækra barna.

Um allt þetta var mér alls ókunnugt þegar ég skottaðist með pabba á hafnarsvæðinu á Patreksfirði þegar ég var barn. Þessi baráttuhugur og seigla sem þarna birtist og einkennir Vestfirðinga, gerir mig ekki minna stolta af því að vera frá Vestfjörðum.

Á leiðinni hingað vestur í morgun velti ég því fyrir mér hvort yfirskrift dagsins, jafnrétti, jöfnuður og velferð höfði til ungs fólks í dag.

Jafnrétti – Stöndum við ekki öll jafnfætis og erum við ekki öll með sömu réttindi, tryggð í stjórnarskrá og lögum?

Jöfnuður – Er Ísland ekki meðal jöfnustu samfélaga í heiminum?

Velferð – Erum við ekki velferðarsamfélag með velferðarkerfi sem styður við okkur og grípur, tryggir afkomuöryggi og kemur í veg fyrir fátækt?

Sumum kann að finnast verkalýðsbarátta gamaldags og telja jafnvel að ekki sé sama þörf á henni nú og áður. Að við búum ekki við sömu vandamál og launafólk gerði á síðustu öld þegar félagsleg réttindi voru af skornum skammti, atvinnuleysistryggingar voru ekki til staðar og fólk sem missti vinnuna lenti í fátækt og vosbúð og gat ekki fætt börnin sín né klætt.

Þegar húsakostur almennings var hríðlekir óeinangraðir kofar með sagga- og fúkkalykt sem settist í hár og klæðnað þeirra sem í þeim bjuggu – eða þegar fólk hafði ekki rétt á hvíldartíma, vann myrkranna á milli við slæman aðbúnað og hneig jafnvel niður, meðvitundarlaust af þreytu.

Þó okkur hafi miðað töluvert áfram á síðustu 100 árum og lífskjör séu á heildina litið betri í dag en áður –  eru þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag ekki ósvipuð þeim sem voru áður og misskipting og ójöfnuður grasserar enn okkar samfélagi.

Staðreyndirnar tala sínu máli:

Við búum í samfélagi þar sem ríkasta eitt prósentið á Íslandi á eitt þúsund milljarða króna.

  • En þúsundir búa í ósamþykktu húsnæði við ömurlegar aðstæður og fólk á leigumarkaði býr við húsnæðisóöryggi og himinháa leigu.

Við búum í samfélagi sem er ríkt af auðlindum

  • En arðurinn af þessum sameiginlegum auðlindum er látinn renna í hendur fárra eða út úr landi á –  meðan heilbrigðiskerfið og önnur grunnþjónusta er látin grotna niður.

Við búum í samfélagi þar sem bilið milli ríkra og fátækra breikkar og þeir auðugustu verða sífellt auðugri

  • Á sama tíma og þúsundir barna búa við fátækt og tugir þúsunda Íslendinga fá laun sem duga ekki til framfærslu – fyrir að vinna baki brotnu í störfum sem halda samfélaginu gangandi.

Síðustu mánuðir og ár hafa minnt okkur rækilega á að sjaldan hefur verið meiri þörf á verkalýðsbaráttu og  samstöðu meðal launafólks gagnvart atvinnurekendum, en ekki síður stjórnvöldum.  Fleiri krónur í launaumslagið hafa nefnilega lítið að segja;

  • Þegar verð á nauðsynjavöru hækkar frá mánuði til mánaðar, langt umfram laun og stjórnvöld standa aðgerðarlaus hjá.
  • Þegar stjórnvöld bregðast við verðbólgu með að beina aðhaldi sínu að almenningi með skattahækkunum og hækkunum á opinberum gjöldum á sama tíma og þau halda hlífiskildi yfir stórfyrirtækjum og atvinnugreinum þrátt fyrir methagnað.
  • Þegar stefna stjórnvalda veldur viðvarandi húsnæðisskorti með tilheyrandi verðhækkunum, húsnæðisóöryggi og útgjaldaaukningu fyrir heimilin.

Þrátt fyrir það óréttlæti sem blasir við okkur og þann augljósa ójöfnuð sem er til staðar í okkar ríka samfélagi,  þreytast ýmis öfl í samfélaginu ekki á því að telja okkur trú um að slíkar vangaveltur eigi ekki við rök að styðjast heldur séu byggðar á misskilningi.

Okkur er sagt að vera þakklát og vera ekki að kvarta enda sé hvergi meiri jöfnuður í heiminum en hér á landi.

Okkur er talin trú um  – að launafólk beri ábyrgð á stöðugleikanum og vaxandi verðbólgu. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að fólk sem hefur lítið á milli handanna geti sjálfu sér um kennt  – og að frumkvæðisleysi, leti og óráðsía sé ástæða þess að það hefur það ekki betra.  

Við vitum þó betur – og gerum okkur grein fyrir að málflutningur sem þessi er einungis til þess fallinn að slá ryki í augu okkar, telja okkur trú um að þessi misskipting sé eðlileg og draga úr okkur baráttuvilja okkar.

Kæru félagar.

Barátta launafólks í gegnum árin hefur skilað okkur auknum réttindum, almannatryggingum, jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, heilsusamlegum og öruggum vinnuaðstæðum, fæðingarorlofi og símenntun svo eitthvað sé nefnt.  Við getum verið stolt af þeim sigrum sem náðst hafa – en baráttunni er ekki lokið.

Gerum okkur grein fyrir því – að þetta er barátta,

  • Að réttlátari skipting gæðanna krefst baráttu
  • Að sú barátta sem við þurfum að heyja krefst seiglu og þrautseigju.
  • án baráttu hefðum við ekki náð þeim árangri sem við höfum náð og að það er vegna verkalýðsbaráttu en ekki fyrir tilstilli stjórnmálamanna sem þessi árangur hefur náðst.

Tal um baráttu kann að hljóma gamaldags í samhengi nútímans en staðreyndin er sú stéttabarátta er alls ekki úrelt enda er stéttaskipting jafn raunveruleg í dag og hún var fyrir 100 árum.

Mig langar til að hvetja alla þá sem hér eru til þess að taka þátt í baráttunni! Hvort sem það er með því að mæta í kröfugöngu, fara yfir launaseðilinn sinn og fylgjast með  því að ekki sé brotið á sér, skrá sig í stéttarfélag, taka þátt í starfi stéttarfélags eða starfi stjórnmálaflokka, taka þátt í kosningum eða einfaldlega með því að taka til máls í umræðum á kaffistofunni eða skrifa status á facebook!

Þéttum raðirnar og krefjumst þess að stjórnvöld ráðist í aðgerðir til að bregðast við hækkandi verði á nauðsynjum með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun, berjumst fyrir aukinni hlutdeild launafólks í verðmætasköpuninni, krefjumst réttlátari skiptingu gæðanna og að sá auður sem er í samfélaginu, sem við höfum öll tekið þátt í að skapa, sé nýttur til að fjárfesta í velferð og öflugri grunnþjónustu, svo sem heilbrigðiskerfi og menntakerfi, okkur öllum í hag.

Kæru félagar,

Stöndum saman og strengjum þess heit að sjá til þess að eftir hundrað ár muni afkomendur okkar líta til baka og furða sig á þeim ójöfnuði og misskiptingu sem ríkir í dag.

Til hamingju með daginn!

Auður Alfa Ólafsdóttir

  1. maí ræða á Ísafirði
DEILA