Hvalveiðar

Kallað hefur verið eftir umræðu um hvalveiðar í kjölfar eftirlitsskýrslu Matvælastofunnar (MAST) um veiðar á langreyðum við Ísland. Rétt er að bregðast við því og rekja nokkur sjónarmið sem halda verður til haga í þessari umræðu.

Það er höfuðskylda hvers veiðimanns að hitta og aflífa bráðina eins skjótt og fumlaust og hægt er þannig að það valdi dýrinu sem minnstum sársauka. Þetta er grundvallarregla sem gildir um allar veiðar á öllum dýrum á Íslandi og hafinu um kring og er ákvæði þess efnis lögfest í lögum um velferð dýra, sbr. 27. gr. Lögin gilda um öll hryggdýr auk tífætlukrabba, smokkfiska og býflugna en fiskveiðar eru undanskyldar. Hvalir falla undir lögin þótt líta verði jafnframt til þess að um hvalveiðar gilda sérlög og eiga þær sér langa forsögu.

Samt er það svo í raunheimi að skot geiga og jafnvel reyndustu veiðimönnum tekst ekki í öllum tilvikum að aflífa bráð sína samstundis. Ekki hafa allar hreindýraskyttur hitt í fyrsta skoti og ljóst að særð hreindýr hafa verið elt uppi í dágóða stund þar til þau voru tryggilega aflífuð. Mýs drepast ekki umsvifalaust í öllum tilvikum í gildrum og því fer fjarri að fuglaskotveiðimenn hitti í öllum skotum og því miður særist vafalaust fjöldi fugla sem ekki eru handsamaðir á hverju veiðitímabili.

Þetta er hinn ískaldi veruleiki veiða enda ljóst að meginreglan um að aflífa skuli dýr eins skjótt og hægt er er matskennd og án frekari hlutlægra viðmiðana. Það fer eftir aðstæðum og eðli þeirra veiða sem um ræðir hvort veiðimaður telst hafa brotið regluna eða ekki. Veiðar á villtum dýrum verða heldur ekki lagðar að jöfnu við aflífun búfjár.  


Eftirlitsskýrsla MAST

Niðurstaða MAST er að óásættanlega hátt hlutfall veiddra langreyða við Ísland árið 2022 þjáðist við aflífun og telst útkoman verri en við svipaða athugun árið 2014. 75% dýranna deyr við fyrsta skot, 92-97% við annað skot. 59% dýra deyr samstundis og miðgildi tíma til dauða þeirra dýra sem ekki deyr strax er um 11 mínútur. Frávikin eru skiljanlega fréttnæmust og vekja upp sterk viðbrögð en á sama tíma hefur lítið borið á margvíslegum athugasemdum Hvals hf. við skýrslu MAST í opinberri umfjöllun. Eins hefur sá mikilvægi þáttur málsins, að engar reglur voru brotnar að mati stofnunarinnar og veiðarnar hafi stuðst við þekktar og viðurkenndar aðferðir, ekki heldur farið hátt.

   
Sá hængur er á matskenndri niðurstöðu MAST, um að óásættanlega hátt hlutfall hvalanna þjáist við aflífun, er að það eru engin skýr lögbundin viðmið um það hvað telst vera óásættanlegt í þessum veiðum. Fram til þessa hafa ýmsar fullyrðingar hagsmunahópa og stjórnmálamanna verið byggðar á tilfinningarökum. Þær eiga vissulega rétt á sér en eru ekki haldbærar málsástæður sem á eru byggjandi við frekari ákvarðanatöku af hálfu stjórnvalda um framtíðarfyrirkomulag þessara veiða.

Er það alveg skýrt og öllum ljóst að það er óásættanlegt að 75% dýranna drepist við fyrsta skot eða að einungis 59% dýranna drepist samstundis? Er það mikil breyting frá því sem áður hefur verið viðurkennt eða vitað um veiðarnar sl. hálfa aðra öld? Hver setti slík viðmið eða er til þess bær, á hvaða grunni byggja þau og hafa öll rök og sjónarmið verið sett fram á málefnalegan hátt? Standa aðrar hvalveiðiþjóðir sig betur?


Sjálfbær nýting og stjórnarskrá

Þá verður ekki undan því vikist að líta jafnframt til þeirra meginsjónarmiða og reglna sem gilda um hvalveiðar almennt. Hvalveiðar byggja á vísindarannsóknum, lúta sérstökum lögum sem og eftirliti, eru sjálfbærar og í samræmi við alþjóðalög. Sjálfbær nýting auðlinda í hafi og á landi er grundvallarþáttur í velmegun þjóðarinnar og verður áfram til framtíðar litið. Þetta eru ekki gömul og úr sér gengin gildi eða sjónarmið, þvert á móti.


Eins er það alveg skýrt að óljós og huglæg viðmið sem ekki eru byggð á lögmætum grunni hagga í engu ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og atvinnuréttindi. Ef gera á breytingar á inntaki veiðiréttar á hvölum verður slíkt á byggja á lögmætum grunni og samræmast meginreglum stjórnskipunarréttar. Íþyngjandi laga- og reglugerðarákvæði sem takmarka stjórnarskrávarinn rétt verða t.a.m. að fylgja virtum sjónarmiðum um meðalhóf og skýrleika. Ef litið væri t.d. fram hjá því að hægt er að ná betri árangri með nýjum veiðiaðferðum væri verið að brjóta regluna um meðalhóf.


Næst samstaða um framhaldið?

Það sem réttast væri að gera nú er að taka eftirlitsskýrslu MAST til gagngerrar umfjöllunar, rýna niðurstöður hennar samhliða þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við skýrsluna. Þetta verður gert innan atvinnuveganefndar Alþingis og vonandi víðar t.a.m. hjá vísinda- og fræðasamfélaginu og ýmsum hagaðilum. Líklega er þörf á frekari athugunum og eftirliti sem og tilraunum við innleiðingu á nýjum veiðibúnaði og tækni. Slík umræða, byggð á vísindalegum og málefnalegum grundvelli, leiðir þá mögulega fram einhvers konar samstöðu um almenn og skýr viðmið sem eiga að gilda framvegis um þessar veiðar.  

Teitur Björn Einarsson,

höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins

DEILA