Gerum meira saman

Þegar þessi grein er skrifuð eru níu sveitarfélög á Vestfjörðum með samtals um 7500 íbúa og þeim fer fjölgandi. Flest hafa sveitarfélögin líklega verið 37 þegar byggðin var dreifð um allan kjálkann en fóru fækkandi upp úr 1960 þegar þéttbýli stækkuðu, fólki fækkaði og byggð varð strjálbýlli.

Það er gagnlegt að fara yfir söguna til að sjá hvernig samfélögin hafa breyst í gegnum tíðina og þróast í takt við tíðarandann. Það sem við erum að upplifa á okkar tímum er jafnvel hraðari þróun en áður fyrr, en það er margt sem kemur til. Það eru hraðar breytingar í atvinnulífi, mannlífi og umheimurinn allur slær taktinn.

Ný staða kallar á nýja hugsun

Sameining sveitarfélaga hefur lengi verið á dagskrá og nú fara fram sameiningarviðræður tveggja sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum. Þótt sameiningar sveitarfélaga sé ekkert nýjabrum fyrir vestan er þetta alltaf eldheitt umræðuefni. Sem það á að vera, út úr því fæst þó einhver niðurstaða.

Heildarmarkmið stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga er tekin út frá núverandi stöðu og hlutverki sveitarfélaga. Þjónustuhlutverk- og skyldur sveitarfélaga hafa aukist og þau hafa tekið að sér fleiri verkefni frá ríkinu. Málefni fatlaðra færðist frá ríki til sveitarfélaga fyrir áratug. Þar hafa fámenn sveitarfélög haft samvinnu um verkefnið og hefur það gengið ágætlega að mestu leyti. Auk stærri verkefna þá hafa kröfur um öflugri og skilvirkari stjórnsýslu aukist. Þá hafa ný lög eins og persónuverndarlögin verið íþyngjandi fyrir litlar stjórnsýslur. Breytingar á lögum um barnaverndarþjónustu þar sem umdæmi barnaverndarþjónustu eru stækkuð eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna. Þrátt fyrir ríkan vilja eiga lítil sveitarfélög sífellt örðugra um vik með að standa undir öllum þeim lögbundnum verkefnum sem þeim eru falin, þrátt fyrir að einstaklingarnir séu jafn öflugir hvort sem þeir búa í 50 manna sveitarfélagi eða 50.000.

Eitt sveitarfélag á Vestfjörðum?

Út frá stöðunni í dag, ættum við kannski að hækka okkur upp í nokkra þúsunda feta hæð og líta vítt yfir. Við þurfum að velta því fyrir okkur hver staðan sé í dag, hver stefnan verði til framtíðar og hvernig við getum farið þangað saman. Við þurfum að taka umræðu um það hvernig við sjáum okkur eftir 10 ár. Verða níu sveitarfélög, þrjú eða verður það sveitarfélagið Vestfirðir ?

Það er ánægjulegt að sjá að sveitarfélög á Vestfjörðum hafa komið sér saman um aukið samstarf í velferðarþjónustu sem kemur til með að sinna þjónustu við fatlað fólk og barnaverndarþjónustu.  Eitt af mikilvægari  hlutverkum sveitarfélaga er að annast þessa þjónustu og það er mikilvægt að tryggja að réttindi fólks séu jöfn. Þessi samvinna gæti verið upptaktur að frekari samvinnu. Auk þess má minna á samfélagssáttmála um fiskeldi sem sex sveitarfélög á Vestfjörðum gerðu með sér. Tilgangur sáttmálans er að standa sameiginlega að hagsmunagæslu í fiskeldi og tengdum atvinnugreinum á Vestfjörðum með það að markmiði að efla atvinnulíf og mannlíf með heildarhagsmuni Vestfjarða að leiðarljósi.

Samgöngur og sérstaða

Við sameiningu sveitarfélaga fækkar þó ekki kílómetrum á milli staða, sama hvað við leggjum sterkan ljósleiðara. Á síðust árum hefur verið lyft grettistaki í samgöngumálum á Vestfjörðum og má líta marga áratugi aftur til að finna sambærilegan framkvæmdakraft. Svo markmiðum um meiri samvinnu sveitarfélaga verði náð þurfa samgöngur að vera greiðar og öruggar og víða er úrbóta þörf ef litið er með tilliti til byggðaþróunar og daglegrar vinnusóknar. Við gerum kröfur um að samgöngur á svæðinu séu skilvirkar, öruggar og heilsárs. Um þetta getum við verið sammála. Fleiri jarðgöng þurfa að koma til,  jarðgöng undir Mikladal,  Hálfdán og Súðavíkurgöng auk þess þarf fleiri göng til framtíðar. Bættar samgöngur eru forsenda að samvinnu, bættu samfélagi og að sameiningar gangi vel fyrir sig.

Um daginn var ég á kynningu hjá bandarísku fyrirtæki sem hefur farið á stað með nýja aðferð í jarðgangagerð og gæti nýst til að koma lögnum og þar með talið háspennustrengjum í jörðu.  Þessi aðferð snýst um plasmaborun sem drifin er áfram af raforku sem þýðir að hægt er að bora með meiri hraða og með minni kostnaði en áður hefur þekkst. Framtíðin kallar á lausnir og þessi lausn skítur skipulags-, umhverfis- og kostnaðarferlum ref fyrir rass. Vestfirðingar sem og landsmenn allir hljóta að fylgjast spenntir með þessari þróun.

Lýðræðisleg þátttaka

Í níu sveitastjórnum á Vestfjörðum sitja 53 sveitastjórnarfulltrúar og samtals 237 nefndarmenn með hverfisráðunum. Þeirra ábyrgð og skyldur er þær sömu hvort sem þau sitja í sveitarfélögum sem íbúar telja nokkra tugi eða þúsund.

Á síðustu árum hefur reynst erfiðara að fá fólk til að taka þátt í framboðum til sveitarstjórna, það bæði við um þar sem listakosningar eru eða að fá fólk til að gefa kost á sér í óhlutbundnar kosningar. Tími fólks er dýrmætur og langflestir í annarri vinnu og tíminn sem fer í sveitarstjórnarmálin eru oftar en ekki tekinn af frítíma eða  tíma með fjölskyldunni. Slakari áhugi speglast í könnun sem hefur verið gerð meðal sveitarstjórnarfólks sem hefur sýnt að flestir telji kjör þeirra séu ófullnægjandi og álagið nokkuð mikið.

Saman náum við lengra

Heilt yfir eru Vestfirðir á vaxtarskeiði núna, fiskeldi í vexti, ferðaþjónusta sem aldrei fyrr, spennandi uppbyggingarverkefni á Reykhólum og umtalsverðar bætur í samgöngumálum. Sum samfélög standa þó frammi fyrir áskorunum, það vantar fjölbreytni í atvinnulífið og það veldur því að fólki fækkar. Þegar fjöldi íbúar er komin í ákveðið lágmark er erfitt að halda úti grunnþjónustu sem aftur kallar á frekari fólksflutninga. Það er líka virkileg áskorun fyrir sveitarfélög sem eru í mikilli uppbyggingu að standa undir kostnaðarsamari innviðabyggingu og að standa undir aukinni þjónustu.

Er þá ekki bara best snúa bökum saman og sameina samfélög? Hagsmunir eins sveitarfélags eru hagsmunir fjórðungsins í heild og hagsmunir fjórðungsins eru hagsmunir hvers íbúa á svæðinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

DEILA