Alþingi: Teitur Björn tekinn við

Teitur Björn Einarsson frá Flateyr(D) i tók sæti á Alþingi í gær í stað Haraldar Benediktssonar, sem hefur sagt af sér þingmennsku og tekur við sem bæjarstjóri á Akranesi. Teitur Björn sat áður á Alþingi á árunum 2016-2017 og hefur verið varaþingmaður síðan.

Í sérstakri umræðu um kjaragliðnun, sem fram fór í þingsal, sagði Teitur Björn.

“Meginforsenda þess að hægt sé að bæta kjörin enn meira, frú forseti, er að íslensku þjóðfélagi auðnist að skapa meiri verðmæti, að okkur takist að skapa áfram skilyrði fyrir auknum hagvexti og framleiðniaukningu, efla framleiðslu- og útflutningsgreinar og nýta þann mannauð sem hér er til frekari nýsköpunar og tækniframfara. Þetta er grundvallaratriði og öll umræða um ríkisfjármál eða styrkingu velferðarkerfisins verður að taka mið af þessum augljósu sannindum”

Sagðist hann munu leggja þetta til grundvallar í störfum sínum fyrir íbúa Norðvesturkjördæmis og landsmanna allra á þingi næstu misserin. Aukin skattheimta og útþensla hins opinbera væri ekki svarið til að bæta lífskjör og treysta búsetuskilyrði heldur væri það atvinnnuuppbygging drifin áfram af hugviti og framtakssemi fólks í öllum geirum samhliða ráðdeild og hagræðingu hjá hinu opinbera.

DEILA