Torfnes: synjað um leyfi til sölu áfengis

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar lagist gegn því að sýslumaðurinn á Vestfjörðum veitti tækifærisleyfi til sölu og veitinga á áfengi í tjaldi fyrir fyrir utan íþróttahúsið á Torfnesi í síðustu viku þegar fram fór síðasti heimaleikur Harðar í efstu deild karla í handknattleik. Sagði hún í pósti til sýslumannsembættisins að það myndi brjóta gegn umgengisreglum í íþróttamannvirkjum Ísafjarðarbæjar sem lýtur að notkun áfengis og annarra vímugjafa auk þess sem gestum undir áhrifum er vísað úr húsi.

Gísli Jón Kristjánsson hjá Herði sagðist geta skilið þessa afstöðu en hins vegar væri hún ekki í samræmi við afstöðu bæjarins varðandi aðrar umsóknir. Í þessu yrði eitt yfir alla að ganga og vera samræmi í stefnu bæjaryfirvalda. Nefndi hann sem dæmi nýafstaðið KSÍ þing sem fram fór í íþróttahúsinu á Torfnesi með tilheyrandi veislu og áfengisveitingum. Annað dæmi væri Fossavatnsgangan og árshátíð bæjarins það þriðja. Benti Gísli Jón á að til væru góð salarkynni í öðrum húsum fyrir veislur af þessu tagi, svo sem í Edinborgarhúsinu eða Félagsheimilinu í Bolungavík.

Gísli Jón Kristjánsson sagði að veruleikinn væri orðinn breyttur varðandi áfengi á íþróttaleikjum. Hann hefði í vetur séð að áfengi væri selt, einkum bjór, á leikjum í Mosfellsbæ, Reykjavík og í Hafnarfirði og á einum staðnum hefði verið leyft að fara með bjór inn á áhorfendasvæði í plastglösum. Mikilvægt væri fyrir Ísafjarðarbæ að marka sér skýra stefnu í þessum efnum sem gengi jafnt yfir alla. Þessu afgreiðsla bæjarstjórans væri ekki ásættanleg.

DEILA