Súðavík: sanddæling langt komin

Sandæluskipið Sóley að stöfum við Langeyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að samkvæmt lauslegu mati hafi ríflega 90% af uppdælingu við Langeyri farið fram. Aukið var við magn samkvæmt samningi við Íslenska kalkþörungafélagið, og er það nokkurn veginn það sem upp á vantar núna.

„Það hefur hins vegar ekki farið fram úttekt á stöðunni eftir að Sóley fór af vettvangi, en hæðarlínur eru að skýrast og komnar nokkuð nærri lagi. Það á hins vegar eftir að leggja annað efni ofan á og eru það næstu skref auk frekari hönnunar á lóð ofan við landfyllinguna. Sú vinna stendur yfir og tekur mið af lokahönnun verksmiðjuhúsnæðis og lokafrágangi lóðar.“

Að öðru leyti eru óbreytt áform sagði Bragi Þór og stefnt að því að halda áfram með verkið eftir því sem framvinda uppdælingar leyfir og aðrar ytri aðstæður.


DEILA