Samband íslenskra sveitarfélaga: kostar nærri milljarð króna á ári

Frá landsþinginu 2019. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á föstudaginn var. Í ársreikningi sambandsins fyrir 2022 , sem hefur bækistöðvar sínar í Reykjavík, kemur fram að kostnaður við rekstur þess voru rúmar 920 milljónir króna. Helstu útgjaldaliðir voru launakostnaður upp á nærri 600 milljónir króna og þjónustukaup sem voru um 260 m.kr.

Reksturinn er fjármagnaður að mestu með framlögum frá Jöfnunarjóði sveitarfélaga og sveitarfélögunum. Jöfnunarsjóðurinn lagði til um 640 m.kr. og sveitarfélögin 140 m.kr. Hjá sambandinu starfa 34 starfsmenn í 31 stöðugildi.

Meðal verkefna sem framundan eru og varða sveitarfélögin er fyrirhöguð endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hafa verið kynntar tillögur séfræðingahóps um róttækar breytingar á dreifingu fjárins til sveitarfélaga. Lagt er til að taka upp sérstakar greiðslur til höfuðborgarinnar og Akureyrar svo og auknar greiðslur til „millistórra fjölkjarna sveitarfélaga“ en lækkaðar verulega greiðslur til fámennari sveitarfélaga. Samkvæmt tillögunum munu framlög hækka verulega til Ísafjarðarbæjar, lítilsháttar til Bolungavíkur en lækka til sjö annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Í heildina lækka framlögin til Vestfjarða.

Í umsögn sambands íslenskra sveitarfélag um fyrirhugaða endurskoðun á Jöfnunarsjóðnum segir að fulltrúar sambandsins hafi átt þess kost að fylgjast með mótun tillagna um breytingar á jöfnunarkerfinu. „Almennt hafa viðbrögð við þeim tillögum verið jákvæð.“ Leggur það áherslu á að horft til þeirra áskorana sem sveitarfélög standa frammi fyrir, „ásamt því að sérstaklega verði hugað að auknum stuðningi við sveitarfélög, m.a. í menntamálum og þjónustu við
fólk í leit að alþjóðlegri vernd.“

Loks segir í umsögninni að Í viðræðum milli sveitarfélaga og ríkisins leggi „sambandið sérstaka áherslu á að fá
fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Gríðarlegur vöxtur útgjalda í málaflokknum er einkum til kominn vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig.“

DEILA