Íslenska á netinu fyrir börn er gagnvirkt námsefni með leikjaívafi í íslensku sem öðru máli fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Kennsluvefurinn er gjaldfrjáls og öllum opinn.
Á kennsluvefnum eru sjö námskeið í mismunandi þyngdarstigum. Markhópurinn eru fimm til sjö ára börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi og eru að byrja að lesa.
Efnið á vefnum Icelandic Online fyrir börn mun einnig nýtast sem ítarefni við móðurmálsnám, en í því er sérstök áhersla lögð á skólamál og mál námsbóka. Námskeiðið tekur mið af Aðalnámskrá leik- og grunnskóla, og nýtir sér vefnámskeiðaumhverfi Icelandic Online, sem hentar bæði tölvum og snjalltækjum.
Vefurinn Icelandic Online hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og má því sambandi nefna Hagnýtingarverðlaun Háskólans og sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu.
Verkefnið hlaut styrki frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Barnavinafélaginu Sumargjöf, Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur, Þróunarsjóði innflytjendamála og Þróunarsjóði námsgagna. Vefurinn verður hýstur hjá Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands.