Minning: Guðvarður Kjartansson

Guðvarður Kjartansson

               frá Flateyri.

               Ógleymanlegur samferðarmaður er Guðvarður Kjartansson, sterkgreindur og jafnan með glöðu bragði.  Hann brá því stórum svip yfir dálítið hverfi, Flateyri við Önundarfjörð.

Guðvarður var af Eyrarætt, afkomandi Ólafs Jónssonar lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði; Einar Guðmundsson, langafi hans, var frá Breiðadal neðri í Mosvallahreppi, en gerðist síðar bóndi á Selakirkjubóli í Flateyrarhreppi.  Afi Einars, Jón Sigfússon í Tungu í Kirkjubólssókn, var þriðji maður frá ættföðurnum, Ólafi á Eyri.

               Eiginkona Ólafs lögsagnara var Guðrún Árnadóttir prests í Hvítadal Jónssonar.  Síra Árni, faðir Guðrúnar, var sonur Jóns prests Loptssonar í Saurbæjarþingum og  Sigþrúðar Einarsdóttur prests á Stað í Steingrímsfirði.

               Guðvarður var niðji Sigurðar stúdents Ólafssonar í Ögri.  En meðal annarra barna þeirra Ólafs lögsagnara og Guðrúnar voru Þórður í Vigur, Ingibjörg átti síra Jón Sigurðsson á Rafnseyri, afa Jóns forseta, og Solveig átti síra Jón Sigurðsson í Holti í Önundarfirði, þann, er seinna var kallaður “Vaðapresturinn” af því að hann drukknaði í svonefndum Vöðum skammt frá Holti.  Foreldrar síra Jóns voru síra Sigurður Jónsson prófastur í Holti undir Eyjafjöllum og Valgerður Jónsdóttir í Laugarnesi Þórðarsonar. Í prófaststíð síra Sigurðar barst tilskipan frá Danakonungi þess efnis, að hætt skyldi að halda þríheilagt á hátíðum.  Síra Sigurður gegndi því engu.   Hann þótti merkismaður og ræðuskörungur.  Af börnum sonar hans, síra Jóns, komst upp dóttirin Jarþrúður, sem átti Boga  fræðimann á Staðarfelli Benediktsson, höfund Sýslumannaæfa.  En það er önnur saga.

               Langafi Guðvarðar í föðurætt var Jóhann bóndi Guðmundsson í Unaðsdal á Snæfjallaströnd, afkomandi Jóns hreppstjóra Jónssonar á Hróðnýjarstöðum í Laxárdal í Dalasýslu.  Eiginkona Jóns var Halla Sigurðardóttir bónda Runólfdóttir á Sauðafelli í Miðdölum.  Sonur þeirra var Sigurður Jóhannsson á Flateyri, föðurafi Guðvarðar.  Kona Sigurðar og föðuramma Guðvarðar var Guðbjörg Einarsdóttir.  Guð blessi minningu þeirra.

               Ógn var notalegur hugblærinn í þeirri stofu Grunnskólans á Flateyri, sem ætluð var Tónlistaskólanum.  Ofan af veggjunum horfðu andlitsmyndir genginna fræðara og það var traustvekjandi, þótt sumir væru að vísu æði harðir undir brún.  Fyrir neðan kolsvart, glampandi píanó; við gluggann hægindastóll frá Guðmundi heitnum í Víði. Guðvarður hafði látið innritast nemandi í tónfræði. Og nú var hressandi að kafa í kyrrð eftir leyndardómum þessarar greinar undir hinum bröttu fjöllum við þennan djúpa sjó;  í vestfirsku skammdegi ólítil uppörvun andanum að átta sig á því, að litlu skrefin í dúr-skalanum eru á milli 3. og 4. og 7. og 8. tóns.  Í laghæfum moll-skala aftur á móti milli 2. og 3. tóns og 7. og 8. tóns á leiðinni upp, en á milli 6. og 5. tóns og 3. og 2. tóns á leiðinni niður.

               Guðvarður var ritfær í besta lagi.  Um það vitna Þættir úr byggðasögu Flateyrar, sem hann samdi og birtust í bókinni Firðir og fólk.

               Guð blessi minningu drengsins góða.  Guð varðveiti, huggi og styrki ástvini hans.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA