Hæstiréttur: Ísafjarðarbær lagðist gegn áfrýjun

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Þorbjörns H. Jóhannessonar fyrrv. bæjarverkstjóra um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar frá 27. janúar 2023. Ísafjarðarbær lagðist gegn beiðninni.

Hæstiréttur tekur sjálfstæð ákvörðun óháð afstöðu aðila. Hins vegar skiptir afstaða aðila máli þegar Hæstiréttur leggur mat á hvort málið eigi að fara áfram. Séu báðir aðilar sammála því að að máið eigi að fara fyrir Hæstarétt eru meiri líkur en ella að Hæstiréttur samþykki erindið.

Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur vegna starfsloka hans hjá gagnaðila en starf hans sem yfirmaður eignasjóðs gagnaðila var lagt niður.

Leyfisbeiðandi byggir m.a. á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem sú niðurstaða dómsins að ekki liggi fyrir að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu, réttmætisreglu eða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og ekki hafi verið farið í bága við jafnræðisreglu hafi verið röng. Jafnframt hafi sú niðurstaða Landsréttar að niðurlagning starfs leyfisbeiðanda hjá gagnaðila hafi verið innan stöðuumboðs bæjarstjóra verið röng enda hafi hann ekkert umboð haft til að grípa til ráðstafana á grundvelli úttektarinnar án þess að gera bæjarráði eða bæjarstjórn grein fyrir þeim aðgerðum fyrirfram.

Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna Ísafjarðarbæ af öllum kröfum leyfisbeiðanda.

Hæstiréttur segir í ákvörðun sinni að hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda né verði ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.

Uppfært kl 14:36. Bætt var málsgrein við fréttina um almenna afstöðu Hæstaréttar til erindis um leyfi til áfrýjunar.

 

DEILA