GEFUM ÍSLENSKU SÉNS: MÁ BJÓÐA YKKUR KYNNINGU?

Eins og mörgum er vonandi ljóst hefur átakið Íslenskuvænt samfélag: Við erum öll almannakennarar fengið framhaldslíf.  Verður þar af leiðandi haldið áfram með þá vitundarvakningu sem er algerlega nauðsynleg til að íslenskt mál megi dafna sem best í breyttu umhverfi. Við sem að átakinu stöndum erum þess fullviss að Vestfirðir geti þar verið leiðandi afl.

Ekki skal átakið sem slíkt útlistað nánar hér. Bent skal á allmargar greinar og tilkynningar sem birst hafa á vef Bæjarins besta og annars staðar. Tekið er þó fram að yfirskrift átaksins hefur verið breytt. Gengur átakið nú undir nafninu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Sú nafngift er betur til þess fallin að gera átakið aðlaðandi og opið öllum.

Um þessar mundir stendur yfir skipulagning viðburða ásamt því að drög eru lögð að kynningarefni. Liður í ferlinu er að bjóða upp á stutta kynningu á átakinu. Hefur nú þegar verið haldin kynning hjá Ísafjarðarbæ og standa vonir til þess að kynna megi á fleiri stöðum.

Það er einmitt ástæða þess að hér er stungið niður penna. Við viljum bjóða fyrirtækjum, stofnunum, íþróttafélögum og samtökum af hverju tagi upp á kynningu. Kynningu þar sem átakið er kynnt og rætt  hvernig öllum sé í lófa lagið að leggja sitt af mörkum og það án nokkurs tilkostnaðar, hvernig auka megi vitund og tækifæri til íslenskunotkunar svo málið verði brúkunarhæft á sem flestum sviðum samfélagsins. Kynningin tekur um 15-25 mínútur.

Hefðuð þið áhuga á slíkri kynningu? Sé sú raunin megið þið endilega hafa samband í gegnum netfangið islenska@uw.is eða þá símleiðis í síma 8920799. Þar að auki erum við opin fyrir öllum samstarfsmöguleikum.

Fyrir hönd starfshóps Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

DEILA